Hélt að dómaraskandall væri í uppsiglingu

Elín Metta Jensen með boltann gegn ÍBV.
Elín Metta Jensen með boltann gegn ÍBV. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég er mjög svekktur og þetta eru ódýr mörk sem við fáum á okkur og lítið við því að gera,“ sagði Jón Ólafur Daníelsson, þjálfari kvennaliðs ÍBV í knattspyrnu, eftir 3:1 tap gegn Val á Hásteinsvelli í dag.

Mikill hiti var bæði í leikmönnum og þjálfurum í leiknum og Jón Ólafur fékk til að mynda gult spjald.

„Maður er náttúrulega ekki með góðar minningar frá bikarleiknum hér um daginn, þar sem haft af okkur mark og ekki dæmd vítaspyrna, sem var fáránlegt. Síðan er Cloé rifin hérna niður í skyndisókn og það er ekki veifað gulu spjaldi. Maður hélt að það væri sami dómaraskandall að fara í gang og ég ætlaði bara að koma í veg fyrir það,“ sagði Jón Ólafur.

„Dómgæslan var ekki léleg en það var hiti í þessu og ekkert auðvelt að dæma þennan leik. Heilt yfir stóð dómarinn sig vel.“ Eyjakonur spiluðu vel á köflum í leiknum og eins og svo oft áður var Cloe allt í öllu.

„Ég var mjög ánægður með allt liðið í dag. Við erum með ungar stelpur í liðinu. Markmann sem er með enga sögu í meistaraflokki, við erum með tvo bakverði sem er 15 og 16 ára. Hafdís Bára byrjar á kantinum hún er 16 ára og ég var ánægður með liðið. En manni langar að gera betur en það er bara ekki hægt að biðja um það því við erum ekki með reynslu og kunnáttu í það eins og er.“

Náðu saman tveimur æfingum fyrir leik

Eiður Ben Eiríksson annar þjálfari Vals kom í viðtal eftir leikinn. Eiður var mjög sáttur með sitt lið.

„Við vissum það eftir bikarleikinn þegar við særðum þær aðeins eftir þann leik og klárlega gáfu mörkin í þeim leik ekki rétta mynd af því hvernig leikurinn var. Við vissum að við værum að koma í erfitt verkefni og þær skora gott mark strax í leiknum. Það var gríðarlegur léttir þegar við skorum svo þriðja markið.“

Eyjakonur voru sterkari til að byrja með og Valsliðið ekki líkt sér á upphafsmínútunum.

„Við vorum taktlausar í byrjun leiks og er ástæðan fyrir því að það voru sjö leikmenn í landsliðsverkefninu og við náðum bara tveimur æfingum saman. Við vissum að við værum ekki að fara eiga okkar besta leik og þurftum að vera yfir í baráttunni og fara í þessi grunngildi.“

Breiðablik og Valur eru í harðri baráttu á toppi deildarinnar og eru þau líklegust til þess að landa þeim stóra í haust.

„Það erfitt fyrir okkur að gíra okkur út úr þessari umræðu því það eru allir að tala um leikinn 3. júlí [þegar Breiðablik og Valur mætast] og þannig tala fjölmiðlarnir að þetta sé tveggja hesta bardagi og við pössum okkur á því að horfa ekki á það þannig,“ sagði Eiður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert