Líður alltaf vel með þetta lið bak við mig

Alex Freyr Hilmarsson skorar eftir undirbúning Thomsen í kvöld.
Alex Freyr Hilmarsson skorar eftir undirbúning Thomsen í kvöld. mbl.is/Arnþór Birkisson

„Þetta var erfiður leikur og þriðji erfiði leikurinn hjá okkur á einni viku," sagði Tobias Thomsen, framherji KR, í samtali við mbl.is eftir sterkan 2:1-sigur á FH í Pepsi Max-deildinni í fótbolta í kvöld. 

Alex Freyr Hilmarsson kom KR yfir á 24. mínútu og Thomsen bætti við öðru marki KR á 78. mínútu. FH minnkaði muninn tveimur mínútum síðar en sigur KR-inga var verðskuldaður. 

„Við skoruðum snemma í fyrri hálfleik sem gaf okkur auka kraft. Við vissum að við þurftum að halda áfram í seinni hálfleik og við náðum að skora annað mark og það var mikilvægt. Þeir minnka muninn strax en ég er stoltur af því hvernig við kláruðum leikinn.

Ég reyndi að hugsa ekki of mikið um stöðuna í lokin og einbeita mér að mínu hlutverki. Ég hafði ekki miklar áhyggjur því við erum með glæsilegan markmann og mér líður alltaf vel með þetta lið bak við mig."

Thomsen lagði upp fyrsta mark leiksins, en hann viðurkenndi að hann reyndi skot, þegar hann lagði boltann fyrir markið á Alex Frey. 

„Ég verð að vera hreinskilinn. Þetta var klárlega skot, en með vinstri. Alex er hins vegar skarpur leikmaður og við höfum verið heppnir að undanförnu og við erum að fá mörk upp úr svona stöðum. 

Auðvitað erum svolítið heppnir, en við leggjum mjög mikið á okkur til að fá þessi færi sem við fáum. Alex spretti t.d 30-40 metra til að fá þetta færi. Það sýnir hvað við leggjum hart að okkur," sagði Thomsen. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert