Vitleysingar sem tjá sig um allt og alla

Davíð Þór Viðarsson
Davíð Þór Viðarsson Haraldur Jónasson/Hari

Davíð Þór Viðarsson, fyrirliði FH, var skiljanlega óhress eftir 1:2-tap fyrir KR á heimavelli í Pepsi Max-deild karla í kvöld. KR spilaði heilt yfir betur en FH og var sigurinn verðskuldaður. Spilamennska FH í fyrri hálfleik var sérstaklega slök. 

„KR var betra liðið í 90 mínútur. Við virkuðum hræddir í fyrri hálfleik og það þurfti lítið til að slá okkur út af laginu. Við náðum ekki að spila okkar leik og vorum heppnir að vera bara 1:0-undir í hálfleik. Þetta lagaðist í seinni hálfleik og við fengum færi til að jafna en svo refsa þeir okkur. Við náðum að gera leik úr þessu en það er mjög erfitt að ætla að koma til baka í hverjum einasta leik," sagði Davíð í samtali við mbl.is og viðurkenndi hann að sjálfstraustið væri ekki mikið hjá FH eftir erfitt gengi að undanförnu. 

Tel okkur vera alvöru menn 

„KR er búið að vinna sex leiki í röð og við erum búnir að vinna einn af síðustu sex. Það hefur eitthvað að segja. Ef maður horfir á leikmannahópinn okkar er þetta af megninu til mjög reynslumiklir leikmenn og við verðum að þola smá pressu. Ég tel okkur vera alvöru menn og við eigum að þrífast á svona pressu en við náðum því ekki í dag.

Hlutirnir eru ekki að ganga hjá okkur. Við þurfum að hafa mjög mikið fyrir mörkunum okkar á meðan andstæðingurinn eru að skora of auðveld mörk. Það er helsta ástæðan og eitthvað sem við þurfum að breyta."

FH er nú ellefu stigum frá KR og með aðeins þrjá sigra í níu leikjum. Davíð er að sjálfsögðu ekki ánægður með það, enda krafa gerð á toppbaráttu hjá FH. 

„Ég lít ekki á töfluna með glöðu geði. Við erum ellefu stigum á eftir KR og það þýðir ekkert annað en að hugsa um næsta leik. Við verðum að hugsa um bikarleikinn á fimmtudaginn og reyna að fara áfram í honum. Svo er það bara næsti deildarleikur. Það þýðir ekki að horfa á töfluna, en það þýðir heldur ekki að gefast upp."

Fyrir helgi voru fregnir um að leikmenn FH hafi farið í verkfall. Davíð vísaði því alfarið á bug. 

„Þetta er bara vitleysingar sem þurfa að tjá sig um allt og alla á Twitter og menn sem hafa mismikið vit á fótbolta. Það er gott að þeir hafi einhvern vettvang til að tjá sig," sagði Davíð Þór. 

Frá leiknum í kvöld.
Frá leiknum í kvöld. mbl.is/Arnþór Birkisson
mbl.is