Ætlum að gera betur og horfum upp

Ída Marín með boltann í kvöld.
Ída Marín með boltann í kvöld. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Ída Marín Hermannsdóttir skoraði mark Fylkis í 1:1-jafntefli við Selfoss í Pepsi Max-deildinni í fótbolta í kvöld. Ída sagðist svekkt við úrslitin í samtali við mbl.is eftir leik, en bætti við að þau væru líklegast sanngjörn. 

„Ég er smá svekkt yfir að hafa ekki tekið þrjú stig í dag. Við vorum ekki mættar til leiks í fyrri hálfleik, svo þetta er kannski sanngjarnt. Við tókum okkur í gegn í hálfleik og við ætluðum að ráðast á þær. Það gekk ekki alveg, en það var mun betra en í fyrri hálfleik."

Mark Ídu kom úr vítaspyrnu sem hún náði í sjálf. Hún og Kelsey Wys, markmaður Selfoss, lentu þá saman. „Ég man lítið eftir þessu. Ég var að hlaupa og markmaðurinn var allt í einu kominn og ég lenti á henni. Mér fannst þetta vera víti," sagði Ída sem skoraði af öryggi úr spyrnunni. 

Fylkir er nú með sjö stig eins og Selfoss. Keflavík og HK/Víkingur koma þar á eftir með sex og KR í botnsætinu með fjögur. „Við ætlum að halda áfram og vera jákvæðar og æfa okkur í því sem við erum ekki góðar í. Við ætlum okkur að gera betur í seinni hlutanum og við horfum upp," sagði Ída Marín. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert