Augljóslega mjög vafasamur dómur

Frá leiknum í kvöld.
Frá leiknum í kvöld. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

„Þetta eru vonbrigði," sagði bandaríski markmaðurinn Kelsey Wys í samtali við mbl.is eftir að hún og liðsfélagar hennar í Selfossi gerðu 1:1-jafntefli á útivelli gegn Fylki í Pepsi Max-deildinni í fótbolta í kvöld. 

„Mér fannst við eiga skilið þrjú stig úr leiknum. Við héldum boltanum betur en við höfum áður gert í sumar. Þetta var svo augljóslega mjög vafasamur vítaspyrnudómur," sagði Wys, en hún var dæmd brotleg í blálok fyrri hálfleiks og Fylkir fékk víti. Ída Marín Hermannsdóttir fór á punktinn og jafnaði metin. 

„Hún fór framhjá varnarmanninum og ég bakkaði, hún steig svo á boltann og missti hann og ég ætlaði að ná til hans, en hún hleypur svo á mig. Þetta átti ekki að vera víti," bætti hún við og hefur mikið til síns máls. 

Hún segir Selfossliðið vera spila betur upp á síðkastið en í upphafi sumars. „Við tökum margt jákvætt úr þessum leik. Við höfum farið vel yfir ákveðna hluti sem lið og það sést í leikjum. Við erum þolinmóðari, spilum boltanum betur og sköpum fleiri færi. Það vantaði herslumuninn upp á að klára sóknirnar í dag."

Wys lék með öllum yngri landsliðum Bandaríkjanna áður en hún lék 44 leiki í efstu deild heimalandsins. Hún hefur hins vegar verið að glíma við meiðsli á ferli sínum og lá leiðin til Selfoss eftir að Washington Spirit ákvað að endursemja ekki við hana. 

„Þetta er allt öðruvísi en ég er vön. Þetta er lítið land og lítill bær. Markmiðið mitt var að njóta þess að spila fótbolta á ný og hafa gaman," sagði Wys. 

Kelsey Wys
Kelsey Wys Ljósmynd/Selfoss
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert