„Ég á ekki orð“

Tinna Óðinsdóttir, fyrirliði HK/Víkings.
Tinna Óðinsdóttir, fyrirliði HK/Víkings. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við erum alveg ógeðslega svekktar,“ sagði Tinna Óðinsdóttir, fyrirliði HK/Víkings, í samtali við mbl.is eftir að liðið tapaði á ótrúlegan hátt fyrir Breiðabliki í Pepsi Max-deild kvenna í knattspyrnu í kvöld, 2:1. Blikar skoruðu nánast með síðustu spyrnu leiksins eftir að hafa átt 28 tilraunir að marki en allt stefndi í jafntefli.

„Fyrir fram er kannski skrítið að vera svekkt með jafntefli á móti Íslandsmeisturunum, en undir þessum kringumstæðum erum við drullu svekktar. Það segir líka svolítið mikið þegar Blikarnir fagna eins og þær hafi orðið Íslandsmeistarar, svaka sáttar með þrjú stig á móti okkur,“ sagði Tinna við mbl.is, en HK/Víkingur jafnaði seint í leiknum og virtist ætla að stela stigi.

„Við vorum mjög þolinmóðar og settum í smá hápressu þegar 20 mínútur voru eftir sem virkaði. En vá, ég á ekki orð. Ég er svo ógeðslega svekkt. Þetta hefðu verið töpuð stig fyrir Blika en unnin stig fyrir okkur. Og miðað við hin úrslit kvöldsins þá er þetta ennþá meira svekkjandi,“ sagði Tinna, en botnbaráttan er komin í hnút eftir sigur Keflavíkur og jafntefli Fylkis og Selfoss í kvöld. Aðeins eitt stig skilur að þessu fjögur lið í neðri hlutanum.

„Mér fannst spilamennskan hjá mínu liði samt góð og ef við höldum þessu áfram þá hef ég engar áhyggjur. Ef við verðum áfram svona þolinmóðar og spilum okkar leik þá hef ég engar áhyggjur,“ sagði Tinna Óðinsdóttir við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert