Harpa spilar ekki í sumar

Harpa Þorsteinsdóttir spilar ekki knattspyrnu í sumar eftir að hafa …
Harpa Þorsteinsdóttir spilar ekki knattspyrnu í sumar eftir að hafa gengist undir aðgerð vegna rifins liðþófa. mbl.is/Arnþór Birkisson

Knattspyrnukonan Harpa Þorsteinsdóttir mun ekki leika í úrvalsdeild kvenna í sumar, Pepsi Max-deildinni, en það er Fréttablaðið sem greinir frá þessu. Harpa þurfti að gangast undir aðgerð vegna rifins liðþófa fyrr í sumar og verður því frá út tímabilið.

Harpa sleit krossband og reif liðþófa í úrslitum bikarkeppninnar með Stjörnunni í ágúst á síðustu leiktíð gegn Breiðabliki á Laugardalsvelli og hefur ekki spilað knattspyrnu síðan. Endurhæfing Hörpu hafði gengið vel en hún fann fyrir verk í hné eftir að hún jók æfingaálagið.

Það er mjög algengt að liðþófinn rifni við krossbandsslit og hann var saumaður saman í aðgerðinni. Svo þegar ég fór að auka álagið í vor við æfingar var ég farin að finna að það var ekki allt eins og það á að vera. Svo kemur þetta í ljós í vor og ég fór í speglun til að láta laga liðþófann sem tafði endurhæfinguna. Krossbandið lítur mjög vel út eftir aðgerðina en það þurfti að laga liðþófann á ný,“ sagði Harpa í samtali við Fréttablaðið.

Harpa er samningslaus þessa dagan en hún kaus að framlengja samning sinn ekki við Stjörnuna eftir að tímabilinu lauk á síðasta ári. „Ég skrifaði ekki undir nýjan samning í haust til að gefa mér meira svigrúm. Ég hef verið að æfa upp á eigin spýtur og í raun í fríi frá öllu. Ég mun svo skoða hvað gerist þegar maður kemst aftur út á völl,“ sagði Harpa í samtali við Fréttablaðið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert