Mátti ekki tæpara standa

Agla María Albertsdóttir tryggði Breiðabliki sigur gegn HK/Víkingi á lokamínútunum.
Agla María Albertsdóttir tryggði Breiðabliki sigur gegn HK/Víkingi á lokamínútunum. mbl.is//Hari

Breiðablik og Valur verða bæði með fullt hús stiga þegar þau mætast í uppgjöri toppliðanna í næstu umferð Pepsi Max-deildar kvenna í knattspyrnu. Óhætt er þó að segja að það hafi ekki mátt tæpara standa þar sem Breiðablik vann hádramatískan sigur á HK/Víkingi á Kópavogsvelli í 7. umferðinni í gærkvöldi, 2:1.

Leikurinn var eiginlega hreint út sagt ótrúlegur. Breiðablik átti 28 tilraunir að marki, þar af 18 á rammann, en skoraði ekki sigurmarkið fyrr en nánast með síðustu spyrnu leiksins á fjórðu mínútu uppbótartíma. Þá var fyrra markið sjálfsmark strax í upphafi leiks. Það var með hreinum ólíkindum að fylgjast með Blikunum láta skotum rigna að markinu allan leikinn án þess að boltinn vildi inn. Selma Sól Magnúsdóttir og Agla María Albertsdóttir, sem skoraði sigurmarkið með fallegu skoti, voru skotglaðastar og hefðu eflaust sofið illa ef sigur hefði ekki unnist. Hvort hægt sé að tala um meistarabrag á sigrinum skal ósagt látið, en færin sem fóru út í sandinn verða fljót að gleymast fyrst niðurstaðan varð þessi.

Audrey Baldwin átti alveg magnaðan leik í marki HK/Víkings, en hægt er að fullyrða að viðlíka frammistaða sést ekki oft á tímabili. Bakverðirnir áttu erfiðan dag að glíma við Öglu Maríu og Selmu Sól, en annars var baráttan alltaf til staðar og þolinmæðin sömuleiðis. Þegar liðið fór markvisst að bíta frá sér skilaði það laglegu marki sem kom algjörlega aftan að Blikum. Þótt skrítið sé að segja það miðað við tölfræðina þá gátu gestirnir verið afar svekktar með niðurstöðuna úr því sem komið var.

Hins vegar er alveg deginum ljósara að það Breiðablik kemst ekki upp með svona skotnýtingu aftur. Næsti leikur gegn Val mun ráða miklu um framhaldið í toppbaráttunni og þó liðið komi sér alltaf í færi þá er það aðeins hálfur sigur. Smiðshöggið verður að vera til staðar til að fullkomna verkið.

Greinina í heild sinni má sjá á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »