Gísli kominn til Breiðabliks

Gísli Eyjólfsson í leik með Blikum.
Gísli Eyjólfsson í leik með Blikum. mbl.is/Eggert

Miðjumaðurinn Gísli Eyjólfsson er genginn til liðs við Breiðablik á nýjan leik en hann hefur verið í láni frá Blikum hjá sænska B-deildarliðinu Mjällby síðasta hálfa árið. Frá þessu er greint á blikar.is sem og á twitter-síðu Mjällby.

Viðræður á milli félaganna hafa staðið yfir síðustu dagana og þau hafa nú náð samkomulagi um að Gísli snúi aftur í Kópavoginn.

Gísli fór til Mjäll­by á láni í des­em­ber á síðasta ári og skrifaði und­ir láns­samn­ing við fé­lagið út tíma­bilið. Gísli hefur komið við sögu í 12 leikjum Mjällby á leiktíðinni en  liðið hef­ur farið vel af stað á þess­ari leiktíð og er liðið í öðru sæti sænsku B-deild­ar­inn­ar með 25 stig, átta stig­um minna en topplið Var­berg. Þjálfari Mjällby er Milos Milojevic, fyrrverandi þjálfari Víkings og Breiðabliks.

Gísli átti mjög gott tíma­bil með Breiðabliki á síðustu leiktíð þar sem hann skoraði sjö mörk í 22 leikj­um í efstu deild og varð efstur í M-einkunnagjöf Morgunblaðsins. Hann verður löglegur 1. júlí en þann dag sækja Blikar lið KR-inga heim í toppslag deildarinnar.

mbl.is