„Ömurlegt að skora og vinna ekki“

Guðmundur Magnússon fagnar öðru marki sínu gegn Víkingum í dag.
Guðmundur Magnússon fagnar öðru marki sínu gegn Víkingum í dag. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

„Það voru einstaklingsmistök sem töpuðu þessum leik,“ sagði Guðmundur Magnússon leikmaður ÍBV eftir 3:2 tap gegn Víkingum í Mjólkurbikarnum í kvöld. Guðmundur skoraði bæði mörk Eyjamanna.

„Eins frábærir og við vorum í fyrri hálfleik vorum við underdogs í seinni, þeir riðu á vaðið og voru ákveðnari en eins og ég segi þá voru það einstaklingsmistök sem kostuðu okkur og ekki í fyrsta skipti í sumar.“

Eyjamenn voru 2:0 yfir í hálfleik en fengu á sig þrjú í þeim síðari og töpuðu leiknum.

„Við töluðum um í hálfleik bara að halda áfram, ætluðum að halda áfram að keyra á þá og vera þéttir án þess að leggjast of mikið niður. Þetta tap er típískt fyrir lið sem hefur verið að ströggla að vera 2:0 yfir og fara bíða eftir klukkunni í staðinn fyrir að halda bara áfram.“

Þetta er annar leikur Eyjamanna í röð þar sem að þeir spila vel í fyrri hálfleik en allt hrynur í þeim síðari.

„Það sem verður okkur að falli er það að við erum að gefa mörk eins og fyrsta markið á móti Breiðablik. Í þessum leik 2:0 yfir, þeir skora eftir horn en svo labba þeir í gegnum okkur, þetta eru bara einfaldir hlutir sem auðvelt er að koma í veg fyrir og við verðum bara að halda áfram.“

Guðmundur skoraði sín fyrstu mörk fyrir félagið í dag.

„Það er ömurlegt að skora tvö en ná ekki að vinna en svona er þetta og þetta er ekki í fyrsta skiptið sem að þetta gerist. Við verðum bara að halda áfram.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert