FH tók Grindavík í kennslustund

Björn Daníel Sverrisson með boltann í leiknum við Grindavík í …
Björn Daníel Sverrisson með boltann í leiknum við Grindavík í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

FH tók Grindavík í sannkallaða kennslustund þegar liðin mættust á Kaplakrikavelli í Hafnarfirði í átta liða úrslitum Mjólkurbikars karla í knattspyrnu en leiknum lauk með 7:1-sigri Hafnfirðinga.  Steven Lennon skoraði þrívegis fyrir FH og þeir Hjörtur Logi Valgarðsson, Halldór Orri Björnsson, Pétur Viðarsson og Brynjar Ásgeir Guðmundsson sitt markið hver.

Það var jafnræði með liðunum til að byrja með en eftir tíu mínútna leik tóku Hafnfirðingar öll veld á vellinum. Hjörtur Logi Valgarðsson kom FH yfir á 20. mínútu eftir frábært samspil hjá Hafnfirðingum og Steven Lennon bætti við öðru marki FH, fimm mínútum síðar, þegar Brynjar Ásgeir Guðmundsson slapp í gegn og átti flotta fyrirgjöf á Lennon sem kláraði í fyrsta framhjá Vladan Djogatovic í marki Grindavíkur. Fjórum mínútum síðar fengu FH-ingar vítaspyrnu þegar Vladimir Tufegdzic varði skot Halldórs Orra Björnssonar með hendi. Lennon steig á punktinn og skoraði af miklu öryggi úr spyrnunni og staðan orðin 3:0.

Halldór Orri Björnsson bætti við fjórða marki FH-inga á 33. mínútu þegar Brandur Olsen tók hornspyrnu út úr teignum á Halldór Orra sem beið fyrir utan. Halldór tók boltann í fyrsta og þrumaði honum í samskeytin fjær, glæsilegt mark. Á 44. mínútu átti Brynjar Ásgeir svo frábæra fyrirgjöf á fjær þar sem Halldór Orri skallaði boltann fyrir markið á Steven Lennon. Lennon gerði engin mistök og skoraði af stuttu færi í markteignum í opið markið og fullkomnaði þar með þrennuna og staðan 5:0 í hálfleik. FH-ingar byrjuðu seinni hálfleikinn af miklum krafti og fengu tvö góð færi til þess að bæta við mörkum.

Á 55. mínútu fékk Elias Tamburini frábært færi til þess að minnka muninn en frítt skot hans úr teignum fór beint á Daða Frey í marki FH. Hafnfirðingar héldu áfram að pressa Grindvíkinga og sú pressa bar árangur á 65. mínútu þegar Steven Lennon átti fyrirgjöf fyrir markið á Pétur Viðarsson sem stangaði boltann í fjærhornið af stuttu færi og staðan orðin 6:0. FH-ingar voru líklegri aðilinn til þess að bæta við en Marc McAusland tókst að minnka muninn fyrir Grindavík á 82. mínútu þegar hann skallaðo boltann í netið eftir hornspyrnu Gunnars Þorsteinssonar.

FH-ingar voru áfram sterkari aðilinn og fengu nokkur ágætis hálffæri til þess að bæta við mörkum eftir að Grindavík hafði jafnaði metin. Brynjar Ásgeir Guðmudnsson skoraði sjöunda mark FH í uppbótartíma þegar FH brunaði upp í skyndisókn. Jákup Thomsen fór illa með varnarmann Grindvíkinga og renndi honum á Brynjar Ásgeir sem skoraði í tómt markið. FH er því komið áfram í undanúrslit bikarkeppninnar en Grindavík er úr leik.

FH 7:1 Grindavík opna loka
90. mín. Grindavík fær hornspyrnu
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert