Koma Blikar fram hefndum?

Höskuldur Gunnlaugsson og Ólafur Ingi Skúlason í baráttu um boltann.
Höskuldur Gunnlaugsson og Ólafur Ingi Skúlason í baráttu um boltann. mbl.is/Kristinn Magnússon

Átta liða úrslitunum í Mjólkurbikarkeppni í knattspyrnu lýkur í kvöld með þremur leikjum en Víkingur Reykjavík varð í gær fyrsta liðið til að tryggja sér farseðilinn í undanúrslitin.

Á Kópavogsvelli leiða Breiðablik og Fylkir saman hesta sína. Liðin áttust við í Pepsi Max-deildinni á dögunum þar sem Fylkismenn höfðu betur í markaleik 4:3. Blikarnir komust í úrslit Mjólkurbikarsins í fyrra en töpuðu fyrir Stjörnunni þar sem úrslitin réðust í vítaspyrnukeppni. Breiðablik hefur slegið út Magna og HK á leið sinni í átta liða úrslitin en Fylkir sló út Gróttu og Þrótt Reykjavík.

Í Kaplakrika eigast við FH og Grindavík en liðin eigast aftur við í deildinni í Grindavík á mánudaginn. Báðum liðum hefur vegna frekar illa í deildinni síðustu vikurnar en þau hafa ekki náð að vinna í síðustu fjórum leikjum sínum. FH sló Íslandsmeistara Vals út í 32-liða úrslitunum og vann ÍA í 16-liða úrslitunum. Grindavík hafði betur á móti Aftureldingu í 32-liða úrslitunum og gegn Vestra í 16-liða úrslitunum.

Á Meistaravöllum mætast KR og Njarðvík. KR-ingar hafa verið á mikilli siglingu og hafa unnið sex leiki í röð í Pepsi-Max deildinni þar sem þeir tróna á toppnum. Það hefur hefur hins vegar hvorki gengið né rekið hjá Njarðvíkingum undanfarnar vikur. Þeir hafa tapað fimm leikjum í röð í deildinni og nú síðast 5:1 á heimavelli fyrir Haukum. KR sló Dalvík/Reyni út í 32-liða úrslitunum og Völsung í 16-liða úrslitunum. Njarðvík sló út Fram og Keflavík.

Allir leikir kvöldsins hefjast klukkan 19.15 og verða þeir í beinni textalýsingu hér á mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert