Ýmislegt sem fer undir skinnið hjá ákveðnum mönnum

Davíð Þór Viðarsson átti mjög góðan leik á miðjunni hjá …
Davíð Þór Viðarsson átti mjög góðan leik á miðjunni hjá FH í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við byrjðu leikinn vel enda vorum við staðráðnir í að bæta upp tapið gegn KR í deildinni í síðustu umferð,“ sagði Davíð Þór Viðarsson, fyrirliði FH, í samtali við mbl.is eftir 7:1-sigur liðsins gegn Grindavík í átta liða úrslitum Mjólkurbikarskarla á Kaplakrikavelli í Hafnarfirði í kvöld.

„Við vildum sýna okkar rétta andlit eftir misgóðar frammistöður að undanförnu og það var alvöru vilji og hugur í mönnum frá fyrstu mínútu og það sást á vellinum. Þegar að þeir missa svo mann af velli varð þetta ennþá þægilegra en við gerðum vel í að koma okkur í 2:0. Björn Daníel kom inn í holuna og stóð sig mjög vel. Hann er góður í að finna svæði og finna menn í kringum sig og mér fannst Brandur líka frábær á miðjunni. Hann er ótrúlega góður á boltanum og með frábært auga. Hann er öflugur þegar hann er með völlinn fyrir framan sig og þessi breyting virkaði mjög vel í þessum leik og það er mjög jákvætt að vera komin áfram í bikarnum en við þurfum að rífa okkur í gang í deildinni.“

FH er í sjöunda sæti deildarinnar með 12 stig eftir níu leiki og því var mikið undir hjá liðinu í kvöld.

„Við skulduðum sjálfum okkur alvöru frammistöðu og við vildum sýna það í verki að við erum með gott lið. Við erum alls ekki búnir að leggja árar í bát, hvorki í deildinni né bikarnum, þótt við séum langt frá toppnum í deildinni eins og staðan er í dag. Við tökum einn leik fyrir í einu en núna þurfum við fyrst og fremst að fara tengja saman nokkra sigra og þá eru hlutirnir fljótir að breytast. Hvort það skilar okkur ofar í töfluna þar svo bara að koma í ljós.“

Mikið hefur verið rætt um FH-liðið að undanförnu og var meðal annars talað um að leikmenn liðsins hefðu farið í verkfall. Þá talaði Kristján Óli Sigurðsson, sérfræðingur í Dr. Football hlaðvarpsþættinum um að Davíð Þór hefði átt að leggja skóna á hilluna fyrir tveimur árum síðan en Davíð vildi ekki tjá sig um þau ummæli við blaðamann mbl.is í kvöld.

„Auðvitað les maður fréttirnar og maður heyrir ákveðna hluti hér og þar um það sem sagt er hverju sinni. Persónulega þá hefur þetta umtal ekki mikil áhrif á mig þótt það sé ýmislegt sem maður lætur út úr sér í viðtölum sem fer undir skinnið hjá ákveðnum mönnum. Ég ætla ekki að tjá mig um einhver einstaka ummæli um mig, mönnum er frjálst að hafa sína skoðun, en það var eitthvað talað um að ég hefði verið fastur í miðjuhringnum í einum leiknum og ég held að ég hafi hlaupið einhverja sex kílómetra í þeim ákveðna leik,“ sagði Davíð Þór í samtali við mbl.is.

mbl.is