Dramatík í toppslagnum

Hlín Eiríksdóttir sækir að Áslaugu Mundu Gunnlaugsdóttur á Hlíðarenda í …
Hlín Eiríksdóttir sækir að Áslaugu Mundu Gunnlaugsdóttur á Hlíðarenda í kvöld. mbl.is/Arnþór Birkisson

Valur og Breiðablik skiptu með sér stigunum þegar liðin mættust í toppslag 8. umferðar úrvalsdeildar kvenna í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, á Origo-vellinum á Hlíðarenda í gær en leiknum lauk með 2:2-jafntefli í hörkuleik.

Breiðablik byrjaði leikinn af krafti og Agla María Albertsdóttir átti skot í stöng strax á 5. mínútu. Andrea Rán Hauksdóttir fékk fínt færi tveimur mínútum síðar en varnarmenn Valsara komust fyrir skotið á síðustu stundu. Margrét Lára Viðarsdóttir kom svo Valskonum yfir á 11. mínútu eftir laglega fyrirgjöf Fanndísar Friðriksdóttur. Margrét Lára tók boltinn niður í teignum og lagði hann snyrtilega fram hjá Sonný í markinu og staðan orðin 1:0. Valskonur héldu áfram að þjarma að Blikum og fimmtán mínútum síðar tvöfaldaði Hlín Eiríksdóttir forystu Valskvenna með föstu skoti fyrir utan teig sem fór af Krisínu Dís, varnarmanni Blika, og í netið.

Blikastúlkur vöknuðu aðeins við annað markið og Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir átti fínt skot úr aukaspyrnu á 33. mínútu sem Sandra í marki Valskvenna varði. Berglind Björg Þorvaldsdóttir minnkaði muninn fyrir Blika á 39. mínútu eftir frábæra fyrirgjöf Ástu Eirar Árnadóttur en hún setti boltann viðstöðulaust í bláhornið framhjá Söndru. Blikar áttu nokkur fín hálffæri undir lok fyrri hálfleiks sem liðinu tókst ekki að nýta sér sem skildi og staðan því 2:1 í hálfleik, Val í vil.

Blikar byrjuðu seinni hálfleikinn af miklum krafti og Agla María Albertsdóttir fékk frábært tækifæri til þess að jafna metin fyrir Blika á 49. mínútu þegar hún fékk frítt skot í teignum af stuttu færi en Sandra varði vel frá henni. Leikurinn róaðist talsvert eftir þetta. Valsliðið hélt áfram að stjórna ferðinni en á 87. mínútu átti Karólína Lea Vilhjálmsdóttir skot úr teignum sem fór af varnarmönnum Vals. Boltinn hrökk til Aelxöndru Jóhannsdóttur sem skoraði af stuttu færi og tryggði Blikum jafntefli.

Valskonur eru áfram á toppi deildarinnar með 22 stig eftir fyrstu átta leiki sína og Breiðablik fylgir fast á hæla þeirra með jafn mörg stig en lakari markatölu í öðru sæti deildarinnar.

Valur 2:2 Breiðablik opna loka
90. mín. Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir (Breiðablik) fer af velli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert