Kunnum alveg að spila í smá gjólu

Kristín Erna Sigurlásdóttir, ÍBV, með boltann Barbára Sól Gísladóttir, sem …
Kristín Erna Sigurlásdóttir, ÍBV, með boltann Barbára Sól Gísladóttir, sem skoraði sigurmark Selfoss í kvöld, sækir að henni. Ljósmynd/Guðmundur Karl

„Ég er alveg bara ótrúlega ánægður, frábær vinnusemi og eljusemi hjá öllum þeim 25 sem komu hér til Eyja,” sagði Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari Selfoss, eftir 1:0 sigur á ÍBV í Pepsi Max-deild kvenna í Vestmannaeyjum í kvöld.

„Við vorum með áætlun að koma hingað og ná í þrjú stig. Við töpuðum hérna í fyrra en komum hingað núna og unnum sem er bara alveg frábært,“ sagði Alfreð, en Selfoss var 1:0 yfir í hálfleik eftir að hafa verið að spila gegn miklum vindi.

„Þótt það sé alltaf logn á Selfossi þá kunnum við alveg að spila í smá gjólu en þetta er bara smá vindur,“ sagði Alfreð, en sigurinn í Eyjum er annar 1:0-sigur Selfoss í röð.

„Við erum mjög ánægðar með það, náum að halda markinu hreinu. Vörnin er bara að verða betri og betri. Miðjan að verða betri og betri sama og sóknin. Það er stígandi í þessu og svo markmaðurinn hjá okkur að mínu mati einn af þeim betri ef ekki sá besti í þessari deild. Við erum bara að búa til gott lið og erum með gott lið og frábæran 2. flokk.”

Leikmannamarkaðurinn er opinn eins og stendur. Er Selfoss að fara  að styrkja sig? „Hver veit?“ sagði Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari Selfoss.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert