Sara og Berglind í stjórn Leikmannasamtaka Íslands

Berglind Björg Þorvaldsdóttir og Sara Björk Gunnarsdóttir ásamt Sigríði Láru …
Berglind Björg Þorvaldsdóttir og Sara Björk Gunnarsdóttir ásamt Sigríði Láru Garðarsdóttur, sem er lengst til vinstri. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sara Björk Gunnarsdóttir og Berglind Björg Þorvaldsdóttir eru nýjar stjórnarkonur í Leikmannasamtökum Íslands en þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá samtökunum.

Fréttatilkynningin hljóðar þannig:

„Það er með miklu stolti og gleði sem við hjá Leikmannasamtökum Íslands tilkynnum að A-landsliðskonurnar Berglind Björg Þorvaldsdóttir og Sara Björk Gunnarsdóttir eru sestar í stjórn samtakanna.

Þær Berglindi og Söru þarf vart að kynna en báðar gegna þær stóru hlutverki innan íslenskrar knattspyrnu. Þær eru lykilleikmenn í sínum félagsliðum, Berglind í liði Breiðabliks og Sara með liði Wolfsburg, ásamt því að vera báðar landsliðskonur og Sara Björk auðvitað fyrirliði íslenska landsliðsins.

Báðar hafa þær mikinn metnað fyrir hagsmunum leikmanna og vilja taka þátt í því að standa vörð um þá hagsmuni. Við hjá Leikmannasamtökunum fögnum því að leikmenn séu að taka virkan þátt í okkar starfi. Okkar markmið er að sjálfsögðu að sinna og vekja athygli á málefnum leikmanna og gæta að hagsmunum þeirra.

Þeir leikmenn sem eru spilandi eiga, að okkar mati, að láta sig málin varða bæði fyrir sig og komandi leikmenn framtíðarinnar til að gera allt umhverfi íþróttanna betra.

Við erum gríðarlega stolt af því að starf leikmannasamtakanna sé að eflast með þessum hætti og er það að okkar mati mikil viðurkenning á okkar starfi að leikmenn á borð við Berglindi, Söru og Arnar Svein gangi til liðs við okkur.

Fyrir hönd Leikmannasamtaka Íslands,

Hafdís Inga Helgud. Hinriksdóttir

Stjórnarformaður Leikmannasamtaka Íslands

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert