Fjögur jafntefli í sex leikjum

Davíð Snær Jóhannsson tryggði Keflvíkingum jafntefli gegn Fjölni í Grafarvoginum …
Davíð Snær Jóhannsson tryggði Keflvíkingum jafntefli gegn Fjölni í Grafarvoginum í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Fjölnismenn sitja áfram í toppsæti 1. deildar karla í knattspyrnu, Inkasso-deildarinnar, eftir 1:1-jafntefli gegn Keflavík í 11. umferð deildarinnar á Extra-vellinum í Grafarvogi í kvöld. Albert Brynjar Ingason kom Fjölnismönnum yfir gegn Keflavík í Grafarvogi á 36. mínútu þegar hann fylgdi eftir skoti Guðmundar Karls Guðmundssonar, fór framhjá Sindra í marki Keflavíkur, og skoraði úr þröngu færi. Það virtist allt stefna í sigur Fjölnismanna en Davíð Snær Jóhannsson tryggði Keflvíkingum jafntefli með marki í uppbótartíma og þar við sat og er liðið í sjötta sæti deildarinnar með 16 stig.

Kenneth Hogg skoraði tvívegis fyrir Njarðvíkinga þegar liðið vann 3:0-sigur gegn Víkingi Ólafsvík í Njarðvík en Ivan Prskalo kom Njarðvík yfir á 40. mínútu áður en Hogg bætti við tveimur mörkum til viðbótar. Emmanuel Keke fékk að líta beint rautt spjald á 49. mínútu í liði Víkinga í stöðunni 2:0 en Njarðvík fer með sigrinum upp úr fallsæti og í 10 stig í tíunda sætið en Víkingar eru í fimmta sætinu með 17 stig.

Oliver Helgi Gíslason tryggði Haukum jafntefli gegn Gróttu með marki í uppbótartíma í Hafnarfirði en leiknum lauk með 2:2-jafntefli. Pétur Theódór Árnason kom Gróttu yfir á 44. mínútu en Gunnlaugur Fannar Guðmundsson jafnaði metin fyrir Hauka á 55. mínútu. Halldór Kristján Baldursson kom Gróttu yfir á 70. mínútu áður en Oliver Helgi jafnaði metin en Grótta er áfram í öðru sæti deildarinnar með 21 stig á meðan Haukar eru í níunda sætinu með 11 stig.

Jóhann Helgi Hannesson jafnaði metin fyrir Þórsara gegn Magna á …
Jóhann Helgi Hannesson jafnaði metin fyrir Þórsara gegn Magna á Grenivík. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Helgi Guðjónsson reyndist hetja Fram gegn Leikni en Helgi skoraði bæði mörk Fram í 2:1-sigri liðsins í Safamýrinni en þau komu bæði í fyrri hálfleik. Sólon Breki Leifsson minnkaði muninn fyrir Leiknismenn á 59. mínútu en lengra komust Breiðhyltingar ekki. Framarar eru í fjórða sætinu með 20 stig en Leiknismenn í sjöunda sætinu með 15 stig.

Þá gerðu Afturelding og Þróttur 1:1-jafntefli í Mosfellsbæ þar sem Rafael Victor kom Þrótturum yfir með marki úr vítaspyrnu undir lok fyrri hálfleiks en Andri Freyr Jónasson jafnaði metin fyrir Aftureldingu á 86. mínútu og þar við sat. Afturelding er í ellefta sæti deildarinnar með 10 stig en Þróttarar eru í áttunda sætinu með 14 stig.

Kristinn Þór Rósbergsson kom Magna yfir gegn nágrönnum sínum úr Þór á Grenivík með marki úr vítaspyrnu á 69. mínútu en Jóhann Helgi Hannesson jafnaði metin fyrir Þórsara í uppbótartíma og 1:1-jafntefli því niðurstaðan en Þórsarar eru í þriðja sæti deildarinnar með 20 stig en Magnamenn eru í neðsta sætinu með 7 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert