Hlynur Örn til Fram

Hlynur Örn Hlöðversson.
Hlynur Örn Hlöðversson. Ljósmynd/blikar.is

Hlynur Örn Hlöðversson, markvörður úr Breiðabliki, hefur yfirgefið Kópavogsliðið og er genginn í raðir Fram sem leikur í Inkasso-deildinni. Þetta kemur fram á vef stuðningsmanna Breiðabliks, blikar.is.

Hlynur Örn, sem er 23 ára gamall, er ekki alveg ókunnugur Fram en hann lék með liðinu sumarið 2017 og þá hefur hann einnig leikið með Njarðvík, Fjölni, Grindavík, Tindastól, KF og Augnabliki.

Hann hefur verið í herbúðum Breiðabliks frá árinu 2014 og hefur spilað átta leiki með liðinu, þar af einn í Pepsi Max-deildinni en hann kom inná fyrir Gunnleif Gunnleifsson þegar hann meiddist snemma leiks á móti KR. Þá á hann einn leik að baki með Fjölni í efstu deild. Hlynur hefur spilað fimm leiki með U-17 ára landsliði Íslands og sex leiki með U-19 ára landsliðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert