Jafnar versta tapið í Noregi eftir 42 ár

Fredrik Aursnes (17) skorar annað mark Molde í leiknum í …
Fredrik Aursnes (17) skorar annað mark Molde í leiknum í dag. Ljósmynd/NTB

Ósigur KR-inga gegn Molde í Noregi í dag, 7:1, í fyrstu umferð undankeppni Evrópudeildar karla í knattspyrnu, jafnar versta tap íslensks liðs gegn norsku í Evrópukeppni.

Þetta er jafnframt í fyrsta skipti sem norskt lið skorar sjö mörk gegn íslensku í Evrópuleik og til að finna jafnstóran ósigur þarf að fara 42 ár aftur í tímann.

Þá töpuðu Framarar 6:0 fyrir Start í Kristiansand í fyrstu umferð UEFA-bikarsins. Start vann 2:0 á Laugardalsvellinum og því 8:0 samanlagt.

Íslensk lið hafa ekki riðið feitum hesti frá Evrópuleikjum gegn norskum liðum í gegnum tíðina. Þetta er í tíunda skipti sem lið frá Íslandi og Noregi mætast frá árinu 1965 og í öll níu skiptin til þessa hafa norsku liðin farið áfram. Ekki er útlit fyrir að það breytist þegar Molde kemur í Vesturbæinn næsta fimmtudagskvöld.

Í nítján leikjum íslenskra og norskra liða hafa aðeins tveir leikir endað með íslenskum sigri. Valsmenn unnu Rosenborg í fyrra, 1:0, og voru hársbreidd frá því að fara áfram en töpuðu 2:3 samanlagt eftir mikla dramatík í Þrándheimi. Þá vann Breiðablik seinni leik sinn gegn Rosenborg á Kópavogsvelli, 2:0, árið 2011 en hafði tapað 5:0 í fyrri leiknum í Þrándheimi.

Sigur Molde var fimmtándi sigurleikur Norðmanna en tveir leikir hafa endað með jafntefli. ÍBV og Viking gerðu 0:0 jafntefli árið 1972 og Keflavík og Lilleström skildu jöfn, 2:2, árið 2006. Báðir leikirnir fóru fram á Íslandi.

Þetta er þó í annað sinn á aðeins sjö árum sem KR-ingar fá á sig sjö mörk í Evrópuleik. Þeir steinlágu á svipaðan hátt, 7:0, fyrir HJK Helsinki í Finnlandi árið 2012.

KR hefur tvisvar tapað með meiri mun í Evrópukeppni, til viðbótar við leikinn í Finnlandi. Vesturbæingar töpuðu 10:0 gegn Aberdeen í Skotlandi árið 1967 og 12:2 fyrir Feyenoord í Hollandi árið 1969.

mbl.is