Jafntefli í grannaslagnum

Leiknir á Fáskrúðsfirði er með tveggja stiga forystu á toppi …
Leiknir á Fáskrúðsfirði er með tveggja stiga forystu á toppi 2. deildar. Ljósmynd/@Leiknirfask

Nágrannaliðin Leiknir frá Fáskrúðsfirði og Fjarðabyggð skildu jöfn, 2:2, þegar þau mættust í 2. deild karla í Fjarðabyggðarhöllinni á Reyðarfirði í kvöld.

Leiknismenn, sem eru á toppi deildarinnar, komust yfir eftir fimmtán mínútur þegar Arkadiusz Jan Grzelak skoraði. José Luis Vidal jafnaði fyrir Fjarðabyggð á lokamínútu fyrri hálfleiks og í upphafi síðari hálfleiks skoraði Gonzalo Bernaldo fyrir Fjarðabyggð, sem var þar með komin í 2:1. Tíu mínútum fyrir leikslok fékk Júlíus Óli Stefánsson hjá Fjarðabyggð rauða spjaldið og Leiknir vítaspyrnu sem Daniel Garcia jafnaði úr 2:2.

Selfoss fór létt með Kára frá Akranesi, 4:0, á Selfossi. Adam Örn Sveinbjörnsson og Ingi Rafn Ingibergsson skoruðu á lokamínútum fyrri hálfleiks og þeir Kenan Turudija og Þór Llorens Þórðarson bættu við mörkum á fyrstu fimmtán mínútum síðari hálfleiks.

Leiknir er með 22 stig á toppnum en Selfoss er nú kominn í annað sætið með 20 stig. Vestri er með 18 stig og á leik til góða og Fjarðabyggð er með 17 stig í fjórða sætinu. Völsungur er með 17 stig og Víðir 16 og bæði lið eiga leik til góða.

Hinir fjórir leikirnir í 11. umferð eru KFG - ÍR sem er annað kvöld og Þróttur Vogum - Völsungur, Dalvík/Reynir - Víðir og Tindastóll - Vestri sem eru á laugardaginn.

Mark Inga Rafns Ingibergssonar fyrir Selfoss gegn Kára má sjá hér fyrir neðan:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert