Draumurinn um íslenskt lið í riðlakeppni fjarlægist

Leikmaður Molde fagnar einu af sjö mörkum liðsins gegn KR …
Leikmaður Molde fagnar einu af sjö mörkum liðsins gegn KR í gær. Ljósmynd/NTB

Evrópuævintýri KR-inga í ár átti sér ekki langa ævidaga en hægt er að fullyrða að liðið sé úr leik í Evrópudeildinni í knattspyrnu eftir 7:1-tap gegn norska úrvalsdeildarliðinu Molde í fyrri leik liðanna í 1. umferð undankeppninnar á Aker-vellinum í Molde í gær.

Vesturbæingar sáu til sólar á fyrstu mínútum leiksins en síðan ekki söguna meir en Evrópuævintýrið var í raun úti í hálfleik þar sem Norðmennirnir leiddu 4:0.

Vesturbæingar fengu á sig þrjú mörk eftir hornspyrnur í gær og það eru mörk sem liðið hefði átt að verjast betur. Í þokkabót voru mörkin öll keimlík en fyrstu tvö mörkin voru eftir skalla á nærsvæðinu sem fór á fjærsvæðið þar sem Molde-menn voru grimmari. Þriðja markið kom eftir skalla á fjærsvæðinu inn á nærsvæðið þar sem leikmenn Molde voru gapandi fríir. Vissulega voru leikmenn Molde bæði stærri og sterkari en leikmenn KR en samt sem áður þá á liðið ekki að fá á sig þrjú nákvæmlega eins mörk og leikmenn liðsins eiga að vera það reyndir að þeir eiga að geta dekkað menn almennilega, jafnvel þótt fyrsti boltinn tapist.

KR-ingar töpuðu fyrir miklu betra liði eins og úrslitin gefa til kynna en tapið hefði ekki endilega þurft að vera svona stórt. Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, þekkir vel til í Noregi eftir að hafa þjálfað úrvalsdeildarlið Lilleström á árunum 2014 til ársins 2016, en hann segir að bilið á milli deildanna sé mikið. „Á undanförnum árum hafa menn hér heima aðeins verið að gera lítið úr norskum fótbolta sem dæmi. Ég hef starfað þar, ég veit hvernig umhverfið þar er,“ sagði Rúnar í samtali við Morgunblaðið í gær. „Við erum ekki að æfa allan daginn eins og þeir. Umgjörðin í kringum liðin er allt önnur en alveg eins og við í dag, þá lenda norsku liðin í vandræðum þegar þau mæta liðum frá til dæmis Belgíu og Hollandi og þau norsku eiga í raun ekki séns heldur á móti þessum stærri liðum þannig að bilið er mjög mikið á milli deilda.“

Íslendingar hafa gert sér vonir um að sjá íslenskt lið í riðlakeppni Evrópudeildarinnar á næstu árum en þá þarf allt að falla með íslensku liðunum að sögn Rúnars.

Sjá ummfjöllun um leiki íslenska liðanna í Evrópudeildinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »