Þróttur hélt pressunni á FH

Janet Egyr í baráttunni við Fríðu Halldórsdóttur í leik Aftureldingar …
Janet Egyr í baráttunni við Fríðu Halldórsdóttur í leik Aftureldingar og ÍA á Varmárvelli í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Þróttur minnkaði forskot FH í eitt stig á toppi 1. deildar kvenna í knattspyrnu, Inkasso-deildarinnar, þegar liðið vann 5:1-sigur gegn Fjölni í áttundu umferð deildarinnar á Eimskipsvellinum í Laugardal í kvöld.

Rakel Sunna Hjartardóttir kom Þrótti yfir strax á 8. mínútu og Linda Líf Boama bætti við öðru marki Þróttara á 33. mínútu og staðan því 2:0 í hálfleik.

Linda Líf Boama var aftur á ferðinni á 62. mínútu og Lauren Wade bætti við fjórða marki Þróttara, þremur mínútum síðar. Mist Þormóðsdóttir minnkaði muninn fyrir Fjölni á 77. mínútu áður en Margrét Sveinsdóttir innsiglaði sigur Þróttara með marki á 80. mínútu og þar við sat. Þróttur er í öðru sæti deildarinnar með 18 stig, einu stigi minna en FH, en Fjölnir er í fallsæti í níunda sæti deildarinnar með 8 stig.

Haukar komu sér úr fallsæti þegar liðið vann 4:0-sigur gegn Grindavík á Ásvöllum. Heiða Rakel Guðmundsdóttir kom Haukum yfir á 11. mínútu og Dagrún Birta Karlsdóttir bætti við öðru marki Hauka á 54. mínútu. Hildur Karítas Gunnarsdóttir bætti við þriðja markinu á 88. mínútu áður en Haukastúlkur innsigluðu sigur sinn með marki í uppbótartíma. Haukar fara með sigrinum upp í sjöunda sæti deildarinnar í 9 stig en Grindavík er í sjötta sætinu með 11 stig.

Þá er Afturelding komin í fjórða sæti deildarinnar í 13 stig og upp að hlið Tindastóls eftir 1:0-sigur gegn ÍA á Varmárvelli þar sem Samira Suleman skoraði sigurmarkið á 39. mínútu. ÍA er hins vegar komið í fimmta sæti deildarinnar í 11 stig.

Tindastóll er áfram í þriðja sætinu eftir 6:1-sigur gegn ÍR á Sauðárkróki en ÍR er sem fyrr í neðsta sætinu án stiga.

mbl.is