Getum gortað okkur af tveimur sigrum í röð

Ólafur Kristjánsson.
Ólafur Kristjánsson. Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason

„Þetta voru góð þrjú stig, góður sigur,” sagði Ólafur Kristjánsson þjálfari FH eftir 2:1 sigur á ÍBV á Hásteinsvelli í Pepsi Max-deild karla í knattspyrnu í dag.

„Það var erfitt að opna leikinn en það tókst, þegar við vorum komnir yfir fannst mér við hafa góð tök á leiknum. Svo þegar við komumst í 2:0 var mjög lítil hætta og við gáfum ekki mörg færi á okkur en við höfum séð það í síðustu leikjum ÍBV að liðið gefst ekki upp, þannig við gátum alveg átt von á áhlaupi. Þeir tóku sénsa í lokin.”

Þetta er annar sigurleikur FH-inga í röð sem hlýtur að vera jákvætt fyrir liðið.

„Já ég er mjög ánægður, við erum búnir að vera að reyna að rembast við það í allt sumar og ég var mjög ánægður með sigurinn í síðasta leik og mjög ánægður með þennan sigur. Þannig við getum gortað okkur á því að vera með tvo sigurleiki í röð. Nú er verkefnið að reyna að ná í þriðja sigurinn í næsta leik.”

Jákup Thomesn fékk víti í fyrri hálfleik og var borinn af velli eftir samstuðið.

„Það var brotið á honum og ég held að leikmaðurinn sem braut á honum hafi dottið þannig ofan á hann að það kom slinkur á hnéð og mögulega tognun á liðbandi var fyrsta melding sem ég fæ, vonandi ekki neitt verra.”

Leikmannamarkaðurinn er opinn og sögusagnir hafa verið um að FH-ingar séu að reyna við Kristján Flóka Finnbogason.

„Ég hef alveg haft fókusinn á þennan leik og það er ekkert í gangi sem að ég get sagt frá akkúrat núna,“ sagði Ólafur Kristjánsson, þjálfari FH.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert