Strákarnir gerðu ekki það sem ég bað þá um

Ian Jeffs.
Ian Jeffs. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

„Ég er gríðarlega svekktur, að tapa þessum fótboltaleik,” sagði Ian Jeffs þjálfari ÍBV eftir 2:1 tap fyrir FH á Hásteinsvelli í Pepsi Max-deild karla í knattspyrnu í dag.

„Þetta er búið að gerast ansi oft í sumar en ég var ekki ánægður með leikinn í dag. Við vorum ekki alveg nógu góðir í 60-65 mínútur af þessum leik. Það kom smá meira líf í okkur í lokin en bara heilt yfir ekki góður leikur.“

Eyjamenn reyndu eins og þeir gátu en ekkert gekk upp hjá þeim í dag.

„Mér fannst strákarnir ekki gera það sem ég var búinn að biðja þá um, við vorum búnir að vinna í því hvernig við pressum og hvernig við viljum vísa pressunni í ákveðna átt, mér fannst við vera bara að gera þetta allt saman alltof hægt. Því miður var þetta bara ekki nægilega gott.”

Mörkin sem Eyjamenn fengu á sig voru frekar umdeild, fengu víti á sig og svo vildu einhverjir meina það að brotið hafi verið á Sigurði Arnari í öðru markinu.

„Það var erfitt að sjá þetta frá okkar sjónarhorni en fólk sem var búið að sjá þetta sagði að þessi dómur hafi verið algjört grín, en ég þarf að horfa á þetta aftur til þess að geta sagt mína skoðun á því. En ég veit ekki með annað markið, einhverjir tala um brot en ég veit ekki, þarf að horfa á þetta aftur.”

Verðum að halda áfram og hafa trú

Eyjamenn eru á botninum með fimm stig og útlitið fyrir veru þeirra í deild þeirra bestu að verða ansi svart.

„Við þurfum náttúrulega bara að halda áfram og hafa trú á þessu og það er eina sem við getum gert. Þetta er bara því miður sama saga hvern einasta leik að við erum alltaf inn í leikjunum, bara svipað og Pedro [Hipólito] var alltaf að segja. Við þurfum bara að komast út úr þessu og vinna einn fótboltaleik sem er erfitt þegar þú ert vanur því að tapa.”

Eyjamenn voru með Litháa á reynslu í vikunni og eru að fá annan leikmann á reynslu í næstu viku.

„Við erum ekki búnir að taka ákvörðun með Litháan hvort að hann semji við okkur. Hann er bara búinn að ná tveimur æfingum sem voru undirbúningur fyrir leik, við þurfum að skoða hann betur í næstu viku. Það er jafnframt að koma annar hafsent á reynslu til okkar, við tökum ákvörðun eftir það,“ sagði Ian Jeffs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert