Langþráður sigur Tindastóls

Tindastólsmenn fyrir leik í sumar.
Tindastólsmenn fyrir leik í sumar. Ljósmynd/Facebooksíða Tindastóls

Tindastóll frá Sauðárkróki vann í gær sinn fyrsta leik í 2. deild karla á þessu keppnistímabili en þá lauk fyrri hluta deildarinnar með síðustu leikjum 11. umferðar.

Tindastóll tók á móti Vestra sem var í öðru sæti fyrir umferðina en hafði misst Selfoss uppfyrir sig. Aaron Robert Spear kom Vestfirðingunum yfir snemma leiks en Arnar Ólafsson jafnaði fyrir Tindastól og Alvaro Cejudo kom Tindastóli í 2:1 í byrjun síðari hálfleiks. Vestri missti Hammad Lawal af velli með rautt spjald og Sauðkrækingar náðu að halda út og innbyrða fyrsta sigurinn.

Dalvík/Reynir lagði Víði úr Garði, 1:0, í Boganum á Akureyri þar sem Þröstur Mikael Jónasson skoraði sigurmarkið í byrjun síðari hálfleiks.

Þróttur í Vogum sigraði Völsung, 2:0, á heimavelli. Húsvíkingar gerðu sjálfsmark í byrjun leiks og Alexander Helgason tryggði sigur Þróttar með marki seint í leiknum.

Leiknir á Fáskrúðsfirði er með 22 stig á toppnum eftir fyrri umferðina. Selfoss er með 20 stig, Vestri 18, Fjarðabyggð 17, Völsungur 17, Víðir 16, Þróttur Vogum 16, ÍR 15, Dalvík/Reynir 15, KFG 12, Kári 11 og Tindastóll er með 5 stig á botninum þrátt fyrir þennan fyrsta sigur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert