Sögulegur leikur í Kópavogi

Atli Arnarson og liðsfélagar hans í HK fá KA í …
Atli Arnarson og liðsfélagar hans í HK fá KA í heimsókn í Kópavoginn í sögulegum knattspyrnuleik. mbl.is//Hari

HK tekur á móti KA í níundu umferð úrvalsdeildar karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildarinnar, í Kórnum í Kópavogi í dag klukkan 17. HK situr í tíunda sæti deildarinnar með 11 stig á meðan KA er í níunda sætinu með 12 stig en liðin hafa aldrei áður mæst í efstu deild og er leikurinn því sögulegur.

HK er með jafn mörg stig og Víkingur sem er í fallsæti og KA er með jafn mörg stig og Grindavík sem er í áttunda sætinu með 12 stig. Það er því mikið undir í Kópavoginum en bæði lið geta slitið sig frá botnsvæðinu með sigri í dag. 

Í síðustu fimm viðureignum liðanna hafa Akureyringar fjórum sinnum fagnað sigri á meðan HK hefur einu sinni fagnað sigri, í júní 2015 þegar liðin léku bæði í 1. deildinni. Síðast þegar liðin mættust í 1. deildinni, sumarið 2016, vann KA 2:0-sigur á Akureyri. Guðmann Þórisson og Ásgeir Sigurgeirsson skoruðu mörk KA í leiknum.

Leiknum í seinni umferðinni, sem fram fór í Kópavoginum, lauk með 3:2-sigri KA. Hákon Ingi Jónsson kom HK yfir í leiknum en Elfar Árni Aðalsteinsson og Aleksander Trninic skoruðu fyrir KA með stuttu millibili í upphafi síðari hálfleiks. Elfar Árni var svo aftur á ferðinni áður en Ágúst Freyr Hallsson minnkaði muninn fyrir HK.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert