Dýrt að missa niður forystu gegn þeim

Árni Snær Ólafsson lék vel í marki ÍA í kvöld.
Árni Snær Ólafsson lék vel í marki ÍA í kvöld. mbl.is/Hari

Árni Snær Ólafsson markvörður og fyrirliði Skagamanna var óhress með að missa strax niður forskotið gegn Grindavík þegar liðin skildu jöfn, 1:1, í úrvalsdeild karla í fótbolta á Grindavíkurvelli í kvöld.

Hörður Ingi Gunnarsson kom ÍA yfir á 26. mínútu en rúmri mínútu síðar jafnaði Óscar Conde fyrir Grindvíkinga og þar við sat.

„Við ætluðum að koma hingað til Grindavíkur og vinna. Við komumst yfir en náðum ekki að halda forystunni nógu lengi. Síðan hefðum við mátt skapa okkur meira í seinni hálfleiknum, þegar liðin spila svona þétt á móti okkur þurfum við að vera betri í því að opna þau. Grindvíkingar eru mjög þéttir, hafa fengið mjög fá mörk á sig, þannig að það er dýrt að missa niður forystu eftir að hafa skorað hjá þeim,“ sagði Árni Snær við mbl.is eftir leikinn.

Þið hljótið að vera með Evrópusæti í sigtinu, eruð í þriðja sætinu og hefðuð komist upp í annað sæti með sigri í kvöld?

„Já, algjörlega. Við sögðum fyrir tímabilið að við ætluðum að berjast við topp fjögur til fimm liðin og mér sýnist við alveg standa uppi í hárinu á þeim. Það var mikilvægt að spyrna sér frá botninum eftir þrjá tapleiki, og nú erum við taplausir í þremur leikjum. Auðvitað hefði maður viljað vinna þá alla en það er ekki alltaf í boði. Tvö jafntefli á útivöllum og einn sigur á heimavelli er í lagi. Ef við sækjum sigur í næsta leik verða allir sáttir,“ sagði Árni Snær Ólafsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert