Komast Skagamenn upp í annað sætið?

Með sigri í kvöld fara Skagamenn upp í annað sæti …
Með sigri í kvöld fara Skagamenn upp í annað sæti Pepsi Max-deildarinnar. mbl.is/Ómar Óskarsson

Tveir síðustu leikirnir í 9. umferð Pepsi Max-deildar karla í knattspyrnu fara fram í kvöld þar sem Skagamenn eiga möguleika á að komast upp í annað sætið í deildinni og Víkingar geta komist úr fallsætinu.

Í Víkinni taka Víkingar á móti Fylki. Víkingur er í 11. sæti deildarinnar með 11 stig en liðið er stigi á eftir KA og Grindavík og er þremur stigum á eftir nýliðum HK. Fylkismenn eru í 7. sætinu með 15 stig.

Víkingur og Fylkir hafa mæst 20 sinnum í efstu deild og hafa Fylkismenn vinninginn. Þeir hafa unnið 12 leiki, Víkingur 5 og þrisvar sinnum hefur jafntefli orðið niðurstaðan.

Í Grindavík taka heimamenn á móti ÍA. Grindavík er í 9. sæti deildarinnar með 12 stig en nýliðar ÍA eru í 3. sætinu með 20 stig og með sigri komast þeir upp fyrir Breiðablik í annað sæti deildarinnar.

Grindavík og ÍA hafa 30 sinnum mæst í efstu deild. ÍA hefur unnið 16 af leikjum liðanna, Grindavík 9 og fimm sinnum hafa liðin gert jafntefli. Það var mikið skorað í viðureignum liðanna í fyrra en Grindavík hafði betur í báðum leikjunum 3:2.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert