Skemmti mér mjög vel í kvöld

Kolbeinn Birgir Finnsson var að mæta mörgum góðum félögum í …
Kolbeinn Birgir Finnsson var að mæta mörgum góðum félögum í kvöld. mbl.is/Arnþór Birkisson

„Við ætluðum okkur að vinna þennan leik og miðað við hvernig þetta spilast þá fannst mér við eiga skilið að fá þrjú stig í dag,“ sagði Kolbeinn Birgir Finnsson, leikmaður Fylkis, í samtali við mbl.is eftir 1:1-jafntefli liðsins gegn Víkingi í níundu umferð úrvalsdeildar karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildarinnar, á Víkingsvelli í Fossvogi í kvöld.

„Það hefur vantað aðeins upp á stöðugleikann hjá okkur í sumar og þessi leikur sannar það kannski. Við vorum ekki að fara nægilega vel með færin okkar en við viljum vera að berjast í efri hluta deildarinnar og það er markmiðið hjá félaginu á næstu árum.“

Lánssamningur Kolbeins við Fylkismenn rennur út um næstu mánaðamót en hann er þakklátur fyrir tíma sinn hjá uppeldisfélaginu í sumar.

„Ég á tvo leiki eftir núna og við ætlum okkur að taka sex stig úr þeim leikjum. Það hefur verið virkilega gaman að fá tækifæri til þess að koma aftur heim og ég tel mig vera búinn að bæta mig mikið í sumar. Ég var ánægður að fá mánuð í viðbót í Árbænum og ætla ekki að svekkja mig á því að ég eigi bara tvo leiki eftir með liðinu heldur frekar að reyna að njóta þess.“

Kolbeinn var að mæta mörgum góðum félögum sínum úr yngri landsliðum Íslands í Víkinni í kvöld.

„Þetta var skemmtilegra heldur en venjulega þar sem maður þekkti meirihlutann í liði andstæðinganna í leiknum. Við erum allir fínir félagar utan vallar og það er alltaf gaman að mæta þeim á vellinum. Ég skemmti mér mjög vel í dag en hefði samt viljað fá þrjú stigin,“ sagði Kolbeinn Birgir í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert