Titillinn langt frá því að vera farinn

Halldór Jón Sigurðsson, Donni, þjálfari Þórs/KA á hliðarlínunni.
Halldór Jón Sigurðsson, Donni, þjálfari Þórs/KA á hliðarlínunni. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

„Bara vonbrigði að tapa þessum leik. Mér fannst við ekki þurfa að tapa þessum leik, bara langt frá því,“ sagði Halldór Jón Sigurðsson,Donni, þjálfari Þórs/KA eftir 3:0 tap fyrir Valskonum í 10. umferð Pepsi Max-deildar kvenna í knattspyrnu nú kvöld.

„Við fannst þetta mjög jafn leikur í fyrri hálfleik. Í seinni hálfleik byrjuðum við af miklum krafti, settum mikla pressu á þær og áttum að skora alla vega tvö mörk en það datt ekki og þá gat þetta farið í hina áttina. Svo missum við Örnu út af sem riðlar leik okkar mikið og það var erfitt. En Valur gerði bara mjög vel í lokin og gerði tvö góð mörk.“

Arna Sif Ásgrímsdóttir, fyrirliði liðsins, fór meidd af velli í seinni hálfleik. Einnig meiddist Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir undir lok leiks. Spurður um stöðuna á liðinu sagði Donni:

„Við vitum núna að Arna meiddist á kálfa og Þórdís meiddist í hnénu og það er langt frá því að vera gott. Við erum með einn minnsta hópinn á landinu þannig að það er vont að missa þessa leikmenn. Einnig var Andrea [Mist Pálsdóttir] búin að vera slæm í bakinu svo við tókum hana líka út af. Þannig við þurfum að sjá hvernig næstu dagar fara í mannskapinn varðandi næsta leik.“

Eftir leikinn er Þór/KA 11 stigum frá Valsliðinu sem eru á toppnum. Spurður um hvort Íslandsmeistaradraumar liðsins séu úti sagði Donni: 

„Nei en þeir eru mjög mjög fjarri. Þeir eru langt frá því að vera búnir, við gefumst aldrei upp. En við gerum okkur fullkomlega grein fyrir því að þetta er erfið staða. En við einbeitum okkur núna að laugardeginum og sjáum hvort við náum ekki að búa til skemmtilega stemmingu í kringum það ævintýri áfram en svo sjáum við bara til með næstu næstu leiki,“ sagði Donni, en Þór/KA mætir KR í undanúrslitum bikarkeppninnar á laugardag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert