Vildi frekar spila illa og vinna

Marc McAusland var fyrirliði Keflvíkinga í kvöld.
Marc McAusland var fyrirliði Keflvíkinga í kvöld. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Skoski varnarmaðurinn Marc McAusland sagði við mbl.is eftir jafntefli Grindvíkinga gegn Skagamönnum í úrvalsdeild karla í fótbolta, 1:1, í Grindavík í kvöld að það væri ekki nóg að spila vel þegar sigrarnir létu á sér standa.

„Ég er mjög sáttur við hvernig við spiluðum í kvöld. Við sköpuðum okkur marktækifæri en það neikvæða við leikinn var að við skyldum ekki nýta þau. Ég tel að við hefðum átt að fá þrjú stig í kvöld,“ sagði McAusland sem var fyrirliði Grindvíkinga í kvöld í fjarveru Gunnars Þorsteinssonar sem tók út leikbann.

„Þetta hefur verið vandamálið undanfarnar vikur. Við höfum spilað vel og varist mjög vel en við virðumst bara ekki geta skorað mörk. Þetta var fyrsta markið í fimm leikjum og það er engan veginn nógu gott. En við fáum lítið af mörkum á okkur og það er það jákvæða. Ekkert lið hefur fengið á sig eins fá mörk og við, en svo höfum við líka skorað fæst mörk af öllum.“

Þurfum að breyta jafnteflum í sigra

Grindvíkingar gerðu sitt sjöunda jafntefli í tólf leikjum í deildinni og það fimmta í síðustu sjö leikjunum og skoski varnarmaðurinn er ekki sáttur við það.

„Jafnteflin gefa ekki mikið. Þótt liðið spili vel og tapi ekki þá skilar það bara einu stigi þegar upp er staðið. Ég myndi frekar vilja spila illa og hirða þrjú stig í hverjum leik. En þannig er það ekki og við verðum einhvern veginn að reyna að breyta jafnteflunum í sigra og reyna að komast ofar í töfluna,“ sagði McAusland.

Grindvíkingar eru komnir með tvo nýja sóknarmenn, Óscar Conde sem skoraði mark liðsins í kvöld og Diego Diz sem kom inn á sem varamaður fyrir hann síðustu 20 mínúturnar. McAusland er bjartsýnn á að þeir styrki liðið.

„Þetta eru flinkir leikmenn, góðir með boltann, og ég er viss um að við eigum eftir að skapa okkur fleiri færi með þá í liðinu. Primo (Óscar Conde) skoraði í fyrsta leiknum í byrjunarliði, sem er frábær byrjun, og vonandi geta þeir byggt ofan á þetta og hjálpað okkur að skora fleiri mörk. Það eru ekki bara framherjarnir sem þurfa að skora, við varnarmennirnir þurfum líka að nýta okkur uppstillt atriði til að gera mörk.

Það jákvæða er að við erum mjög vel skipulagðir hvað varnarleikinn varðar, allt frá fremsta manni til markvarðar. Þess vegna eiga lið erfitt með að skapa sér færi gegn okkur og skora mörk,“ sagði Skotinn.

Nýt þess að spila hérna

McAusland lék með Keflavík í þrjú ár áður en hann kom til Grindavíkur og hann féll með Keflavíkurliðinu í fyrra, án þess að vinna leik. Hann segir að það hafi verið talsverð viðbrigði að koma yfir til Grindvíkinga.

„Síðasta tímabil var geysilega erfitt fyrir Keflavík, fyrir alla sem komu að liðinu, og það er því ánægjulegt að vera í Grindavíkurliðinu sem safnar saman stigum og spilar vel. Ég bý enn í Keflavík og hitti því alla þar áfram en ég er mjög ánægður í Grindavík. Tufa er frábær þjálfari og ég nýt þess að spila hérna,“ sagði Marc McAusland.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert