Auðvitað mikil og stór breyting

Tinna Óðinsdóttir í leik með HK/Víkingi.
Tinna Óðinsdóttir í leik með HK/Víkingi. mbl.is/Árni Sæberg

„Aðalvandamálið var að við hættum að spila boltanum í seinni hálfleik og gera þetta einfalt,“ sagði svekkt Tinna Óðinsdóttir í samtali við mbl.is eftir 2:4-tap HK/Víkings gegn KR á útivelli í Pepsi Max-deildinni í fótbolta í kvöld.

Fyrirliði HK/Víkings viðurkenndi að blautur og þungur völlur hafi haft áhrif á leik beggja liða, en staðan í hálfleik var 1:0, HK/Víkingi í vil. 

„KR-völlurinn er alltaf flottur en auðvitað var þetta tilviljunakennt oft og tíðum. Boltinn stoppaði þegar maður reyndi að senda á næsta samherja. Bæði lið voru að spila á sama velli svo það er ekkert meira um það að segja.“

HK/Víkingur rak Þórhall Víkingsson frá störfum í vikunni og stýrði Rakel Logadóttir liðinu í kvöld. „Auðvitað er þetta mikil og stór breyting en þetta er enn þá sami hópur og við erum góðar í fótbolta og við vitum hvað við erum að gera, svo það er áfram gakk.“

Frá leiknum í kvöld.
Frá leiknum í kvöld. mbl.is/Arnþór Birkisson

HK/Víkingur er í botnsætinu og er liðið búið að tapa fimm leikjum í röð í öllum keppnum. Þrátt fyrir það segir Tinna andrúmsloftið í hópnum vera gott. 

„Þetta er ótrúlega góður hópur og andrúmsloftið er enn þá gott. Það er mjög mikilvægur leikur á móti Keflavík í næstu umferð og nú eru allir leikir hjá okkur úrslitaleikir. Við þurfum að fara í þá alla til að vinna,“ sagði Tinna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert