Ég er greinilega geggjaður þjálfari!

Frá leiknum í Frostaskjóli í kvöld.
Frá leiknum í Frostaskjóli í kvöld. mbl.is/Arnþór Birkisson

„Mér líður stórkostlega. Það er alltaf gaman að vinna og þetta er það sem maður stefnir að alla vikuna. Sigur í dag er stórkostlegt,“ sagði hæstánægð Ragna Lóa Stefánsdóttir, tímabundinn aðalþjálfari KR, í samtali við mbl.is eftir 4:2-sigur á HK/Víkingi í Pepsi Max-deild kvenna í fótbolta í kvöld. 

HK/Víkingur var með 1:0-forystu í hálfleik, en KR-ingar voru mun sterkari í seinni hálfleik. Ragna segir að þrumuræða hennar í hálfleik hafi skilað sér til liðsins.  

„Maður er náttúrulega með alvöruræðu í hálfleik og fær þær upp á tærnar. Maður fær fram viljann til að gera betur. Þær sýndu í dag að þær geta skorað og hugur þeirra var sá að við ætluðum að klára þennan leik og komast upp í fimmta sæti.“

Ragna tók við KR-liðinu eftir að Bojana Besic lét af störfum fyrr í mánuðinum. Undir hennar stjórn hefur KR unnið báða leiki sína. Ragna vill vera aðstoðarmaður næsta þjálfara, sem byrjar væntanlega á morgun. 

Ragna Lóa Stefánsdóttir.
Ragna Lóa Stefánsdóttir. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

„Það er gleði í þessu núna. Hún var líka til staðar þegar Bojana var en hópurinn þéttir sig saman oft þegar skipt er um þjálfara. Það byrjar nýr þjálfari eflaust á morgun. Ég get ekki annað sagt en að hann fái liðið á þægilegum stað í deildinni. Það er gott að vera í fimmta sæti.“

„Ég vona að ég fái að halda áfram og vera til aðstoðar. Ég get ekki séð hvernig er hægt að reka mig eftir þessa frammistöðu. Ég er greinilega geggjaður þjálfari!“ sagði Ragna Lóa hlæjandi að lokum. 

mbl.is