KR upp í fimmta sæti

Þórhildur Þórhallsdóttir og Grace Maher eigast við í kvöld.
Þórhildur Þórhallsdóttir og Grace Maher eigast við í kvöld. mbl.is/Arnþór

KR fór upp um þrjú sæti og upp í fimmta sæti með öðrum sigri sínum í röð í Pepsi Max-deild kvenna í fótbolta í kvöld. KR hafði betur gegn HK/Víkingi á heimavelli, 3:2 og skildi HK/Víking eftir í botnsætinu. KR er nú með tíu stig en HK/Víkingur aðeins sex.

Gestirnir úr HK/Víkingi voru með 1:0-forystu í hálfleik. Fyrri hálfleikurinn var mjög jafn en glæsilegt mark Evu Rutar Ástþórsdóttur beint úr aukaspyrnu undir lok hálfleiksins skildi liðin að. 

Hún setti þá boltann yfir vegginn og í stöngina og inn af um 20 metra færi. KR-ingar voru snöggir að jafna í seinni hálfleik. Betsy Hassett setti þá boltann í bláhornið niðri utan teigs á 50. mínútu. 

Níu mínútum síðar var KR komið í 2:1. Ingunn Haraldsdóttir skoraði þá með skalla eftir fyrirgjöf Lilju Daggar Valþórsdóttur. Skallinn var laus og næstum beint á Audrey Baldwin í marki HK/Víkings en hún missti boltann klaufalega undir sig. 

Ásdís Karen Halldórsdóttir fékk tvö góð færi til að bæta við forskot KR um miðbik seinni hálfleiks en henni gekk illa að hitta á markið. HK/Víkingur refsaði, því Eva Rut skoraði annað fallegt mark á 71. mínútu. Hún rak þá endahnútinn á skemmtilega skyndisókn með fallegu skoti utan teigs. 

KR-ingar voru ekki lengi að komast aftur yfir því Gloria Douglas skoraði sitt fyrsta mark hér á landi aðeins fjórum mínútum síðar. Hún setti þá boltann í netið af stuttu færi eftir fallega fyrirgjöf Betsy Hassett. 

KR gulltryggði sigurinn á 86. mínútu er Katrín Ómarsdóttir skoraði af stuttu færi eftir flottan undirbúning Douglas. Fleiri urðu færin ekki og KR fagnaði mikilvægum sigri. 

Ingibjörg Valgeirsdóttir, markmaður KR, grípur í tómt er Eva Rut …
Ingibjörg Valgeirsdóttir, markmaður KR, grípur í tómt er Eva Rut Ástþórsdóttir skoraði fyrsta mark leiksins beint úr aukaspyrnu. mbl.is/Arnþór
KR 4:2 HK/Víkingur opna loka
90. mín. Lilja Dögg Valþórsdóttir (KR) fer af velli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert