Magnamenn skelltu Keflavík suður með sjó

Magnamenn unnu afar sterkan sigur.
Magnamenn unnu afar sterkan sigur. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Magni hleypti heldur betur lífi í botnbaráttu 1. deildar karla í knattspyrnu, Inkasso-deildarinnar, eftir að liðið skellti Keflavík á útivelli í 12. umferðinni í kvöld, 3:0.

Kristinn Þór Rósbergsson, Lars Óli Jessen og Áki Sölvason skoruðu mörk Magna, en þetta var fyrsti sigur liðsins í fimm leikjum og aðeins annar sigurinn í sumar. Þó Magni sé enn á botninum þá er liðið nú með 10 stig, jafn mörg og Njarðvík og aðeins einu minna en Haukar og Afturelding sem eiga þó leiki til góða síðar í kvöld. Keflavík er svo um miðja deild með 16 stig.

Njarðvík á hins vegar ekki leik til góða á Magna því liðið mætti Þór á Akureyri í leik sem er lokið með 2:1-sigri Þórsara. Rick Ten Voorde, sem kom á láni frá Víkingi R. á dögunum, skoraði bæði mörk Þórs en mark Njarðvíkur var sjálfsmark.

Þórsarar komust með sigrinum upp í annað sætið, í það minnsta um tíma, og eru þar stigi á eftir Fjölni sem er að leika gegn Fram þessa stundina.

Markaskorarar fengnir frá urslit.net.

mbl.is