Þurfum leikmenn sem eru tilbúnir að stíga upp

Cloé Lacasse sparaði ekki stóru orðin í samtali við blaðamann …
Cloé Lacasse sparaði ekki stóru orðin í samtali við blaðamann eftir 9:2-tap liðsins í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta eru slæm úrslit og við erum augljóslega mjög svekktar með þennan leik,“ sagði Cloé Lacasse, leikmaður ÍBV, í samtali við mbl.is eftir 9:2-tap liðsins gegn Breiðabliki í tíundu umferð úrvalsdeildar kvenna í knattspyrnu, Pepsi Max-deildarinnar, á Kópavogsvelli í kvöld.

„Við eigum fínar tíu mínútur en leikurinn er níutíu mínútur þannig að það er ekki hægt að telja þann kafla með, þótt það hafi vissulega verið okkar besti leikkafli. Við erum með ungt og reynslulítið lið sem á auðveldara með að brotna en lið sem er fullt af reynslumiklum leikmönnum eins og Breiðablik sem er með marga landsliðsmenn í sínu liði, sem og unglingalandsliðstelpur. Við erum ekki með þessa reynslu í okkar hóp og þá vantar líka upp á breiddina.“

ÍBV er nú komið í áttunda sæti deildarinnar og er liðið einungis tveimur stigum frá fallsæti eftir níu leiki.

„Við tökum einn leik fyrir í einu núna og stillum upp því liði sem er líklegast til sigurs. Við erum með lítinn hóp þannig að við erum að spila á ungum og reynslulitlum leikmönnum. Þeir eru að fá dýrmætt tækifæri í efstu deild og hlutverk okkar eldri leikmannanna er að leiðbeina þeim eins vel og við getum.“

Cloé ítrekar að leikmenn liðsins þurfi að fara stíga upp og sýna úr hverju þeir eru gerðir á knattspyrnuvellinum.

„Við erum búnar að vera mjög óstöðugar á þessu tímabili og við verðum að finna einhvern stöðugleika. Við þurfum leikmenn sem eru tilbúnir að stíga upp og við þurfum hóp sem stendur saman allt tímabilið. Við erum alltaf að breyta hópnum og það vantar allt jafnvægi í hópinn og liðið. Við höfum verið óheppnar með meiðsli og núna verða allir að stíga upp og fara að gera eitthvað,“ sagði Cloé Lacasse í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert