Varnarleikurinn míglak í Kópavogi

Cloé Lacasse, ÍBV, og Kristín Dís Árnadóttir, Breiðabliki, í kapphlaupi …
Cloé Lacasse, ÍBV, og Kristín Dís Árnadóttir, Breiðabliki, í kapphlaupi um boltann í Kópavogi í kvöld. mbl.is/Arnþór

Breiðablik gekk af göflunum þegar liðið fékk ÍBV í heimsókn í 10. umferð úrvalsdeildar kvenna í í knattspyrnu, Pepsi Max-deildarinnar, á Kópavogsvöll í kvöld. Leiknum lauk með 9:2-sigri Blika þar sem Berglind Björg Þorvaldsdóttir skoraði þrennu fyrir Blika og Agla María Albertsdóttir og Alexandra Jóhannsdóttir tvö mörk hvor en varnarleikur beggja liða var langt frá því að vera til útflutnings.

ÍBV byrjaði leikinn betur og fékk nokkur fín færi til þess að komast yfir. Emma Kelly komst ein gegn Sonný á 3. mínútu og Cloé Lacasse átti flott skot að marki sem Sonný varði í markinu. Karólína Lea Vilhjálmsdóttir kom Breiðabliki yfir á 18. mínútu með fallegu marki en hún fékk allan tímann í heiminum til þess að hlaupa inn á völlinn og hún þrumaði boltanum upp í samskeytin af 25 metra færi. Eftir þetta tóku Blikar öll völd á vellinum og Agla María Albertsdóttir tvöfaldaði forystu Blika, níu mínútum síðar, þegar hún slapp ein í gegn og kláraði vel framhjá Guðnýju Geirsdóttur í marki ÍBV. Mínútu síðar var Agla María aftur á ferðinni þegar hún skoraði þriðja mark leiksins með laglegu skoti af vítateigsboganum og staðan orðin 3:0.

Blikar héldu áfram og á 31. mínútu átti Agla María flotta endingu fyrir markið, beint í lappirnar á Berglindi Björgu Þorvaldsdóttur. Berglind lagði boltann fyrir sig og þrumaði honum í nærhornið með föstu skoti. Sex mínútum síðar átti Kristín Dís Árnadóttir langa sendingu fram völlinn á Berglindi Björgu sem labbaði framhjá Margréti Íris í vörn ÍBV og framherjinn vippaði boltanum snyrtilega yfir Guðný í markinu og staðan 5:0 í hálfleik. Það tók Blika nítján mínútu að brjóta ísinn í seinni hálfleik, þrátt fyrir urmula færa. Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir skoraði sjötta markið á 64. mínútu eftir flottan sprett upp vinstri kantinn og tveimur mínútum síðar bætti Alexandra Jóhannsdóttir við sjöunda marki af stuttu færi úr teignum. Mínútu síðar minnkaði Emma Kelly muninn með fallegu marki fyrir utan teig og staðan orðin 7:1.

Leikurinn róaðist lítið eftir þetta og Alexandra Jóhannesdóttir skoraði áttunda mark Blika á 76. mínútu, aftur af stuttu færi úr teignum og staðan orðin 8:1. Berglind Björg bætti við níunda markinu á 83. mínútu þegar hún þrumaði boltanum upp í samskeytin eftir vandræðagang í vörn ÍBV. Þremur mínútum síðar minnkaði Cloé Lacasse muninn fyrir Eyjastúlkur þegar hún hirti frákast úr teignum og reyndist þetta lokamark leiksins. Blikar eru áfram í öðru sæti deildarinnar með 28 stig, jafn mörg stig og Valur, og nú munar aðeins tveimur mörkum á liðunum. ÍBV er í sjöunda sæti deildarinnar með 9 stig eftir níu leiki.

Breiðablik 9:2 ÍBV opna loka
90. mín. Breiðablik fær hornspyrnu
mbl.is