Getur verið góð æfing fyrir næsta ár

Leke James að skora fyrir Molde gegn KR fyrir viku.
Leke James að skora fyrir Molde gegn KR fyrir viku. Ljósmynd/NTB

Rúnar Kristinsson, þjálfari KR-inga, gerir sér alveg grein fyrir því að hans menn koma til með að ljúka leik í Evrópukeppninni í fótbolta þetta árið í kvöld en KR tekur á móti Molde í síðari viðureign liðanna í 1. umferð undankeppninnar.

KR-ingar fengu slæman skell í Molde fyrir viku en topplið norsku úrvalsdeildarinnar rótburstaði toppliðið í Pepsi Max-deildinni 7:1.

Spurður hvernig sé að undirbúa lið fyrir leik eftir sex marka tap sagði Rúnar:

„Við tókum strax á þessu eftir leikinn í Noregi þar sem við ræddum saman um leikinn og framhaldið. Menn gera sér grein fyrir því að við erum ekkert að fara áfram en við viljum nýta leikinn til reyna að ná í góð úrslit, fá jákvæða upplifun og reyna að gera miklu betur heldur en við gerðum í fyrri leiknum.

Sá leikur var mjög sérstakur. Það sem drap okkur voru föstu leikatriðin þeirra. Þeir skoruðu mark númer tvö og þrjú eftir föst leikatriði og allt í einu var staðan orðin 3:0 á útivelli eftir fína byrjun okkar. Það reyndist erfitt að halda haus eftir þetta og reyna að minnka skaðann,“ sagði Rúnar við mbl.is.

„Við erum ekki að fara að breyta neinu fyrir leikinn í kvöld. Það var ekki leikskipulagið sem klikkaði. En svona skellur kennir manni fullt og við getum lært heilmikið. Við höfum tækifæri til að gefa öðrum leikmönnum tækifæri sem hafa spilað minna. Það er lykilatriði að menn njóti þess að spila. Við viljum ná góðum úrslitum og spila góðan leik. Þessi leikur getur líka verið góð æfing fyrir næsta ár ef við förum í Evrópukeppni,“ sagði Rúnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert