Hélt ég myndi fá hjartaáfall

Rúnar Páll Sigmundsson var hæstánægður í dag.
Rúnar Páll Sigmundsson var hæstánægður í dag. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

„Tilfinningin er ótrúleg. Við erum allir í skýjunum. Þú færð ekki oft svona augnablik í fótboltanum og þetta er æðislegt," sagði hæstánægður Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar, í samtali við mbl.is í dag. 

Stjarnan tryggði sér sæti í 2. umferð í undankeppni Evrópudeildarinnar í fótbolta, þrátt fyrir 3:2-tap gegn Levadia Tallinn frá Eistlandi í dag. Brynjar Gauti Guðjónsson skoraði í uppbótartíma í framlengingu og tryggði Stjörnunni áfram. 

„Þetta var ótrúlegt atvik þegar við skoruðum. Ég hélt ég myndi fá hjartaáfall í fagnaðarlátunum, en ég er enn þá hér og ég er lífandi og ótrúlega ánægður," sagði Rúnar hlæjandi. 

Levadia komst í 3:1 með marki úr víti í lok fyrri hluta framlengingarinnar. Þá virtust Stjörnumenn afar þreyttir, en þeir fundu orku í seinni hlutanum til að sækja. 

„Þeir lágu þvílíkt á okkur og við vorum bara dauðþreyttir, ég þarf ekkert að fara í felur með það. Þeir skoruðu verðskuldað mark. Við héldum hins vegar áfram og þrýstum á þá. Auðvitað fá þeir færi á meðan, en við héldum alltaf áfram og það var æðislegt að skora."

Erum enn þá í vímu

Stjarnan fékk hvert höggið á sig á fætur öðru í þessu einvígi og þrjú mörk komu mjög seint í hálfleikjum. „Karakterinn í þessu liði er ólýsanlegur. Þeir héldu alltaf áfram og þetta er svo sannarlega verðskuldað. Við erum enn þá í einhverri vímu og við njótum augnabliksins."

Með sigrinum tryggði Stjarnan sér viðureign við Espanyol frá Spáni. Liðið er frá Barcelona og leikur á velli sem rúmar 40.000 áhorfendur. Liðið vann m.a 3:0-sigur á Atlético Madríd í spænsku deildinni á síðustu leiktíð. 

„Það er náttúrulega ótrúlega spennandi verkefni að mæta Espanyol. Liðið vann Atlético Madríd 3:0 á síðustu leiktíð og þetta verður mjög spennandi verkefni. Þú færð ekki oft svona verkefni þegar þú ert í Stjörnunni," sagði Rúnar Páll kátur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert