Búnar að stefna að þessu síðan í 1. umferð

Grace Rapp, númer 4.
Grace Rapp, númer 4. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

„Tilfinningin er æðisleg. Við lögðum mikið á okkur sem lið gegn fínu Fylkisliði sem kann að spila fótbolta. Ég er mjög stolt af stelpunum," sagði Grace Rapp, enskur leikmaður Selfoss eftir 1:0-sigur á Fylki á útivelli í undanúrslitum Mjólkurbikarsins í fótbolta í kvöld.

Þrátt fyrir sigurinn var Rapp ekki sérstaklega ánægð með spilamennskuna, en segir það sýna styrk liðsins að vinna þrátt fyrir það. 

„Við hefðum getað gert betur á síðasta þriðjungnum. Við reyndum að gera of mikið sjálfar, í staðinn fyrir að spila boltanum á milli okkar sem lið eins og við gerum venjulega. Það er sérstaklega gott að geta unnið svona leik, þar sem við erum ekki alveg upp á okkar besta.

Liðsandinn er virkilega góður og liðið er á mjög góðum stað. Gengið er flott og sjálfstraustið verður meira með hverjum leikjum. Öllum líður vel á boltanum í liðinu núna og það skiptir máli."

Rapp mun spila bikarúrslitaleik í fyrsta skipti í langan tíma og er hún spennt fyrir tilefninu. 

„Það er mjög langt síðan síðast svo ég er mjög spennt fyrir þessum. Við erum búnar að stefna að því að komast í úrslit frá því í fyrstu umferð og það er virkilega gott að vera komnar alla leið. Nú verðum við að standa okkur í úrslitum og halda áfram því góða sem við höfum verið að gera," sagði Rapp. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert