Cloé Lacasse samdi við Benfica

Cloé Lacasse hefur skrifað undir samning við portúgalska félagið Benfica.
Cloé Lacasse hefur skrifað undir samning við portúgalska félagið Benfica. Ljósmynd/Víkurfréttir

Knattspyrnukonan Cloé Lacasse er gengin til liðs við portúgalska félagið Benfica, en þetta kemur fram á Instagram-reikningi leikmannsins. Cloé kemur til félagsins frá ÍBV, en félagaskiptin hafa legið í loftinu í þó nokkurn tíma.

Benfica endaði í þriðja sæti portúgölsku 1. deildarinnar á síðustu leiktíð með 47 stig, en Cloé hefur leikið með ÍBV frá árinu 2015. Hún á að baki 89 leiki fyrir félagið í deild og bikar, þar sem hún hefur skorað 60 mörk.

Þá á hún að baki 76 leiki fyrir félagið í efstu deild, þar sem hún hefur skorað 51 mark, en hún hefur verið langbesti leikmaður ÍBV undanfarin ár og var m.a. leikmaður ársins hjá Morgunblaðinu 2018 þar sem hún varð efst í M-gjöfinni. Hún er jafnframt með forystu í M-gjöfinni það sem af er þessu keppnistímabili en deilir þar efsta sætinu með Elínu Mettu Jensen úr Val.

Cloé fékk íslenskan ríkisborgararrétt í síðasta mánuði og er því gjaldgeng í íslenska landsliðið.

mbl.is