Selfoss í bikarúrslit í þriðja skipti

Selfyssingar fagna sigrinum í leikslok í Árbænum í kvöld.
Selfyssingar fagna sigrinum í leikslok í Árbænum í kvöld. mbl.is/Arnþór Birkisson

Selfoss er komið í bikarúrslit kvenna í fótbolta í þriðja skipti í sögunni eftir 1:0-sigur á Fylki á útivelli í undanúrslitum Mjólkurbikarsins í kvöld.  

Staðan var markalaus í hálfleik, en bæði lið fengu fín færi til að skora. Fylkir fékk það fyrsta á 12. mínútu en Hulda Hrund Arnarsdóttir skallaði beint á Kelsey Wys í marki Selfoss af stuttu færi. 

Nokkrum mínútum síðar skallaði Hólmfríður Magnúsdóttir framhjá hinum megin. Stefanía Ragnarsdóttir var nálægt því að koma Fylki yfir um miðbik hálfleiksins, en hún hitti boltann ekki nægilega vel úr góðu færi. 

Selfoss fékk hins vegar besta færi hálfleiksins. Fyrst skallaði Hólmfríður að marki, Cecilía Rán Rúnarsdóttir í marki Fylkis varði, en beint á Barbáru Sól Gísladóttur. Barbára náði skot að marki en þá bjargaði Berglind Rós Ágústsdóttir á línu. 

Bæði lið fengu fín færi snemma í seinni hálfleik. Fyrst skaut Hólmfríður rétt framhjá marki Fylkis og hinum megin skallaði Marija Radojicic framhjá úr góðu færi. Hólmfríður fékk mjög gott færi eftir um klukkutíma leik en hún skaut beint á Cecilíu í marki Fylkis þegar hún slapp ein í gegn. 

Fyrsta markið kom loks á 76. mínútu. Cecilía kastaði þá boltanum beint á Selfyssing og örfáum sekúndum síðar sendi Bergrós Ásgeirsdóttir á Grace Rapp sem skoraði af stuttu færi. Hvorugt liðið náði að skapa sér færi eftir markið og Selfoss leikur við Þór/KA eða KR í úrslitum.  

Marija Radojicic úr Fylki með tvo Selfyssinga í sér í …
Marija Radojicic úr Fylki með tvo Selfyssinga í sér í kvöld. mbl.is/Arnþór
Fylkir 0:1 Selfoss opna loka
90. mín. Kristín Þóra Birgisdóttir (Fylkir) kemur inn á
mbl.is