Alltaf að brjóta einhverja „mælstóna“

Óskar Örn Hauksson hefur leikið 300 leiki í efstu deild.
Óskar Örn Hauksson hefur leikið 300 leiki í efstu deild. mbl.is/Hari

Óskar Örn Hauksson hafði ekki hugmynd um það að hann hefði verið að spila sinn 300. leik í efstu deild er blaðamaður spurði hann út í þann áfanga eftir 2:2 jafntefli KR og Stjörnunnar í Pepsi Max-deild karla í knattspyrnu í Vesturbænum en það eru aðeins hann og Birkir Kristinsson sem hafa afrekað það í sögu Íslandsmótsins.

Aðspurður segir Óskar Örn það vissulega vera stórt afrek

„Já. Það er góður tveggja manna hópur þar á ferð. Birkir Kristins er auðvitað eins mikil goðsögn og þær gerast. Það er bara gaman að deila þessu með honum,“ sagði Óskar Örn.

Óskar hugsar þó ekki mikið um þessa hluti núna og á það inni eftir að ferlinum lýkur.

„Ég er í sjálfu sér ekkert að pæla mikið í þessu þannig. Maður er alltaf að brjóta einhverja „mælstóna“. Maður á eftir að skoða þetta þegar maður hættir. Einhvern tímann í fjarlægri framtíð,“ segir Óskar Örn sem er vitanlega ekkert á þeim buxunum að hætta.

Óskar nefndi það í viðtalinu að það væri erfitt að spá í þessum áfanga eftir jafn svekkjandi lok á leik fyrir KR-inga og raun bar vitni en Stjörnumenn jöfnuðu metin í uppbótartíma.

Óskar Örn segist taka góðan seinni hálfleik úr leiknum. Hann var óánægður með fyrri hálfleikinn.

Það var langt síðan við spiluðum leik í deildinni. VIð vorum taktlausir, andlausir og skrýtnir. Miðað við fyrri hálfleikinn þá held ég að þetta sé sanngjarnt en það er náttúrlega hrikalegt að missa þetta,“ sagði Óskar Örn.

Spurður hvort KR hafi átt skilið að vinna leikinn brast út hlátur í ljósi þess að Baldur Sigurðsson, fyrirliði Stjörnunnar var viðstaddur og á leið í viðtal.

„Við vorum komnir yfir og það var komið fram í uppbótartíma. Þá viltu náttúrlega klára leikinn. En við vorum ekki góðir í fyrir hálfleik vorum svolítið að finna taktinn. En ég meina stig er stig og við erum að spila á móti erfiðu liði sem er með sjálfstraust eftir Evrópukeppni. En þegar þú ert kominn með 2:1 stöðu í uppbótartíma eigum við klára leikinn og við eigum að vera með lið til þess að gera það," sagði Óskar Örn í Vesturbænum í kvöld.

mbl.is