KA úr fallsætinu með jafntefli

Tryggvi Hrafn Haraldsson skorar fyrir ÍA í fyrri leik liðanna …
Tryggvi Hrafn Haraldsson skorar fyrir ÍA í fyrri leik liðanna í sumar. Ljósmynd/Sigurður Elvar

KA og ÍA mættust í 13. umferð Pepsi Max-deildar karla í knattspyrnu á Akureyri í leik sem lauk nú rétt í þessu með 1:1 jafntefli. 

Leikurinn byrjaði fjörlega og það var mikill kraftur í báðum liðum.  Skagamenn gerðu fyrsta mark leiksins á 10.mínútu. Stefán Teitur Þórðarson tók aukaspyrnu og átti frábæra sendingu inn á teig KA þar sem Viktor Jónsson skoraði með góðum skalla. 

Eftir þetta var ekki mikið um opin færi hjá liðunum. Tryggvi Hrafn Haraldsson komst næst því að skora eftir frábær tilþrif átti Tryggvi skot fram hjá úr dauðafæri. Mikill hiti var í leiknum og fóru sex gul spjöld á loft í fyrri hálfleik. Staðan 0:1. 

Heimamenn byrjuðu seinni hálfleikinn betur og á 58.mínútu jöfnuðu þeir leikinn. Almarr Ormarsson fékk þá boltann, fór framhjá varnarmanni og skoraði með góðu skoti í fjær hornið. 

Eftir markið reyndu bæði lið að sækja sigurmarkið en KA-menn voru þó sterkari aðilinn það sem eftir lifði leiks. Þó var hvorugt liðið sem náði að skora og 1:1 jafntefli því staðreynd. Fyrsta stig KA-manna í fimm umferðum.  

Eftir leikinn eru Skagamenn í 3. sæti með 22 stig og tókst ekki að komast uppfyrir Breiðablik og í annað sætið. KA liðið er í 10. sæti með 13 stig og komst úr fallsætinu með þessu stigi, allavega í bili.

KA 1:1 ÍA opna loka
90. mín. ÍA fær hornspyrnu Boltinn fer beint í fangið á Aroni.
mbl.is