Ná KR-ingar tíu stiga forystu?

KR og Stjarnan mætast í Vesturbænum í kvöld.
KR og Stjarnan mætast í Vesturbænum í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

KR-ingar gætu í kvöld náð tíu stiga forystu í baráttunni um Íslandsmeistaratitil karla í knattspyrnu og þá gætu Grindvíkingar færst niður í fallsæti að loknum leikjum dagsins.

Fjórir af sex leikjum þrettándu umferðar fara fram í dag og kvöld en eftir 12 leiki eru KR með 29 stig, Breiðablik með 22 og ÍA með 21 stig í þremur efstu sætunum. Við botninn eru Grindavík með 13 stig, Víkingur R. með 12, KA með 12 og ÍBV með 5 stig.

Kemst Fylkir í fjórða sætið?

Fylkir tekur á móti Eyjamönnum í fyrsta leik dagsins klukkan 16 í Árbænum. Fylkismenn eru með 16 stig í sjöunda sætinu en gætu mögulega komist upp í fjórða sætið með góðum sigri. ÍBV situr eitt og yfirgefið á botninum eftir fimm tapleiki í röð en enski miðvörðurinn Oran Jackson gæti spilað sinn fyrsta leik fyrir liðið. Hann kom frá MK Dons í vikunni. Eyjamenn verða hinsvegar með tvo lykilmenn í banni í kvöld, Víðir Þorvarðarson og Sigurður Arnar Magnússon verða ekki með.

Breytt miðja hjá KA

KA fær ÍA í heimsókn á Akureyrarvöll, sem nú er kenndur við Greifann, klukkan 17 í dag. KA hefur tapað fjórum leikjum í röð og er næstneðst fyrir þessa umferð en ÍA er í þriðja sætinu eins og áður segir og myndi með sigri komast í annað sætið, allavega í rúman sólarhring. KA missti í vikunni miðjumanninn Daníel Hafsteinsson til Helsingborg í Svíþjóð en fékk í staðinn spænska miðjumann, Iosu Villar, og kallaði ennfremur Ívar Örn Árnason heim frá Víkingi í Ólafsvík þar sem hann var í láni. Skagamenn eru taplausir í síðustu þremur leikjum og hafa rétt sinn hlut á nú eftir þrjá tapleiki í röð þar á undan. KA-maðurinn Steinþór Freyr Þorsteinsson tekur úr eins leiks bann.

Sex mörk eins og síðast?

Víkingur fær Val í heimsókn í Fossvoginn klukkan 19.15 og þar er grannaslagur af bestu sort. Liðin gerðu 3:3 jafntefli í fyrstu umferðinni í vor þar sem meistarar Vals jöfnuðu þrisvar. Valsmenn eru í sjötta sætinu með 16 stig og eru eitt af fjórum liðum sem gæti verið komið í fjórða sætið að umferðinni lokinni. Víkingar eru með 12 stig og hafa enn aðeins náð að vinna tvo af tólf leikjum sínum í deildinni. Erlingur Agnarsson verður ekki með Víkingum þar sem hann tekur út eins leiks bann.

Stórleikurinn í Vesturbænum

Stórleikur umferðarinnar er svo viðureign KR og Stjörnunnar og sá sem mesta vægið hefur í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn. Tíu stig skilja liðin að og fyrir Stjörnumenn, sem komu heim frá Eistlandi á föstudag eftir að hafa komist áfram í Evrópudeildinni á magnaðan hátt, er tímabilið nánast undir. Þeir verða að ná í þrjú stig í Vesturbænum til að eiga möguleika á að slást við KR-inga og mögulega aðra um meistaratitilinn.

KR-ingar hafa unnið átta leiki í röð, eru með sjö stiga forystu, og ef allt fellur með þeim í umferðinni yrði sú forysta tíu stig að henni lokinni. Í það minnsta eftir kvöldið í kvöld ef KR vinnur og ÍA vinnur ekki á Akureyri. KR getur loks teflt Björgvini Stefánssyni fram í deildinni en hann hefur nú lokið afplánun fimm leikja bannsins.

Tveir síðustu leikir umferðarinnar fara síðan fram annað kvöld, báðir í Kópavogi, þegar HK mætir FH og Breiðablik mætir Grindavík.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert