Ótrúlegt jafntefli í Vesturbænum

Óskar Örn Hauksson í 300. leiknum í kvöld í baráttu …
Óskar Örn Hauksson í 300. leiknum í kvöld í baráttu við Jóhann Laxdal hjá Stjörnunni. mbl.is/Árni Sæberg

KR og Stjarnan gerðu 2:2 jafntefli í Vesturbænum í hreint út sagt ótrúlegum leik í Pepsi Max-deild karla í knattspyrnu í kvöld.

Garðbæingar komust yfir með marki Baldurs Sigurðssonar í fyrri hálfleik. Tvö mörk KR-inga í síðari hálfleik, úr vítaspyrnu frá Tobiasi Thomsen á 57. mínútu, og frá Björgvini Stefánssyni á 80. mínútu breyttu stöðunni aftur á móti í 2:1 og allt virtist stefna í 2:1 sigur KR-inga.

Stjörnumenn neituðu hins vegar að gefast upp og í uppbótartíma tók Jóhann Laxdal langt innkast inn á teig og allt í einu var Hilmar Árni Halldórsson einn á auðum sjó og skallaði knöttinn í netið, 2:2 lokatölur.

Leikurinn fór nokkuð rólega af stað en ljóst var á fyrstu mínútunum að Garðbæingar myndu liggja fremur aftarlega til þess að minnka svæðið fyrir Óskar Örn og félaga í sóknarlínu KR. Það gekk vel eftir til að byrja með auk þess sem slagkrafturinn í sóknarleik þeirra var nokkuð öflugur.

Stjörnumenn áttu tvær álitlegar sóknir á fyrstu 10 mínútuunum en fyrsta mark leiksins skoraði KR-ingurinn fyrrverandi, Baldur Sigurðsson, á 29. mínútu, með hnitmiðunum skalla eftir aukaspyrnu Hilmars Árna Halldórssonar. Skallinn var ekki fastur og flestir áhorfendur gerðu, líkt og Beitir í marki KR, fyrir að boltinn væri á leið framhjá, en inn fór knötturinn, og Garðbæingar komnir í forystu, 1:0.

Sóknarleikur KR skánaði eftir því sem líða tók á fyrri hálfleikinn. Hættulegustu tilraunir KR-inga áttu Tobias Thomsen á 31. mínútu er vippa hans af löngu færi sleikti ofanverða þverslána þar sem Haraldur stóð aðeins út úr markinu.

Daninn Kennie Chopart fékk boltann á fjærstönginni í blálok fyrri hálfleiks, fyrir utan teig og tók þrumuskot, smellhitt, en Haraldur varði boltann styrkri hendi.

Sóknaraðgerðir KR-inga báru loks árangur á 57. mínútu. Boltinn gekk vel manna á milli og á endanum rann knötturinn til Arnþórs Inga Kristinssonar í teignum, sem náði skotinu, sem var varið. Þorri Geir Rúnarsson var aftur á móti allt of seinn í tækliguna, og fór beint í Arnór Inga og víti réttilega dæmt. Tobias Thomsen skoraði svo afar örugglega úr vítinu og jafnaði metin, 1:1.

Varamennirnir tveir, þeir Ægir Jarl Jónasson og Björgvin Stefánsson sáu um sigurmark KR-inga á 80. mínútu. Ægir Jarl tók við boltanum á vinstri vængnum og setti fastan bolta beint á Björgvin rétt innan við vítateigslínuna. Björgvin tók frábærlega við knettinum og setti boltann í gegnum klof Haraldar í markinu hjá Stjörnunni, 2:1.

Þegar allt virtist stefna í sigur KR-inga fengu Stjörnumenn innkast í uppbótartíma. Jóhann Laxdal varpaði knettinum langt inn á teig og Hilmar Árni Halldórsson var allt í einu einn á auðum sjó og gat ekki annað en klárað færið. Lokatölur í Vesturbænum 2:2.

KR hefur 30 stig í toppsætinu en Stjarnan 20 stig í 4. sætinu.

KR 2:2 Stjarnan opna loka
90. mín. Alex Þór Hauksson (Stjarnan) fær gult spjald
mbl.is