Aftur reyndist Logi Valsmönnum erfiður

Kári Árnason, Bjarni Ólafur Eiríksson og Eiður Aron Sigurbjörnsson í …
Kári Árnason, Bjarni Ólafur Eiríksson og Eiður Aron Sigurbjörnsson í skallabaráttu á Víkingsvellinum í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Hinn 18 ára gamli Logi Tómasson stal senunni á ný þegar Víkingur R. og Valur mættust í Pepsi Max-deild karla í knattspyrnu í kvöld. Hann skoraði draumamark fyrir Víkinga í fyrri leik liðanna í vor og í kvöld tryggði hann liðinu stig með jöfnunarmarki, 2:2, þegar tvær mínútur voru eftir.

Áhorfendur þurftu ekki að bíða lengi eftir fyrsta markinu, en það kom strax á áttundu mínútu. Valsmenn fengu þá nægan tíma á boltann úti hægra megin, Birkir Már Sævarsson sendi fyrir þar sem boltinn rataði beint á kollinn á Lasse Petry sem var einn og óvaldaður í miðjum vítateignum og skallaði í netið. 1:0 fyrir Val.

Víkingar hresstust eftir því sem líða tók á fyrri hálfleikinn og komu boltanum í nokkur skipti að markinu, en náðu þó ekki að reyna almennilega á Hannes Þór Halldórsson í rammanum hjá Valsmönnum. Staðan 1:0 fyrir Val í hálfleik.

Rétt eins og í fyrri hálfleik þá skoruðu Valsmenn snemma í þeim síðari. Víkingar höfðu verið meira með boltann þegar Birkir Már fékk hann hægra megin, sendi fyrir þar sem enginn Víkingur náði að hreinsa. Sigurður Egill Lárusson fékk hann því í dauðafæri á fjærstönginni og skoraði. Staðan orðin 2:0 fyrir Val og staðan erfið fyrir heimamenn.

Víkingar voru þó áfram sprækir og það skilaði sér eftir klukkutíma leik. Davíð Örn Atlason fór þá fram hægri kantinn og sendi fyrir þar sem Guðmundur Andri Tryggvason kom á fjærstöngina og skallaði í netið. Staðan 2:1 fyrir Val og nóg eftir.

Tíminn virtist hins vegar vera að hlaup frá Víkingum þrátt fyrir að sækja af krafti. Á 88. mínútu gerðist það hins vegar að Víkingar jöfnuðu og þar var að verki enginn annar en Logi Tómasson sem hafði komið inn á sem varamaður. Hann þrumaði þá í netið úr teignum, en hann skoraði einmitt draumamark í fyrri leik liðanna sem endaði 3:3 á Hlíðarenda.

Valur hefði komist upp í fimmta sætið með sigri, en situr í sjöunda sætinu með 17 stig. Víkingar komust úr fallsæti og í það 10. með 13 stig með þessu stigi.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is og viðtöl koma inn á vefinn síðar í kvöld. Nánar er svo fjallað um alla leiki dagsins á íþróttasíðum Morgunblaðsins á morgun.

Víkingur R. 2:2 Valur opna loka
90. mín. Ólafur Karl Finsen (Valur) á skot framhjá Bakfallsspyrna framhjá markinu.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert