Stephany og Bianca ekki með í næstu leikjum

Stephany Mayor og Bianca Sierra.
Stephany Mayor og Bianca Sierra. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Knattspyrnulið Þórs/KA verður án tveggja lykilmanna sinna, Stephany Mayor og Bianca Sierra, í næstu þremur leikjum sínum í úrvalsdeild kvenna, Pepsi Max-deildinni. Skapti Hallgrímsson blaðamaður skýrir frá þessu á Facebook-síðu sinni.

Þær eru á leiðinni í leiki með mexíkóska landsliðinu á Ameríkuleikunum í Perú og verða ekki með Þór/KA í leikjum gegn Fylki annað kvöld, ÍBV á Akureyri á laugardaginn og gegn Breiðabliki í Kópavogi 1. ágúst.

Mexíkó mætir Jamaíka á sunnudaginn kemur, Paragvæ 31. júlí og Kólumbíu 4. ágúst.

Stephany Mayor er markahæst í deildinni ásamt Berglindi Björgu Þorvaldsdóttur og Öglu Maríu Albertsdóttur úr Breiðabliki með 10 mörk í 10 leikjum og Bianca Sierra er í lykilhlutverki í varnarleik liðsins.

Þetta er að sjálfsögðu mikill missir fyrir Akureyrarliðið sem er með frekar fámennan leikmannahóp. Liðið er í þriðja sæti deildarinnar og féll um helgina út gegn KR í undanúrslitum bikarkeppninnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert