„Þessi jafntefli svolítið þreytt“

Marinó Axel Helgason.
Marinó Axel Helgason. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég get ekki verið annað en sáttur,“ sagði bakvörðurinn Marinó Axel Helgason hjá Grindavík eftir markalaust jafntefli gegn Breiðabliki í Pepsi Max-deild karla í Smáranum í kvöld. 

Grindavík hefur nú gert átta jafntefli í fyrstu þrettán leikjunum í deildinni.„Þótt leiðinlegt sé að segja það þá eru þessi jafntefli að verða svolítið þreytt. En á þessum útivelli þá get ég ekki verið annað en sáttur. Einnig út frá því hvernig þessi leikur spilaðist. Við vorum lengi í gang og Túfa [þjálfari] lét okkur heyra það vel í hálfleik. Við vorum miklu ákveðnari í síðari hálfleik en vorum þó allt of fljótir að falla aftur í öfustu raðir. Þetta var orðið ógeðslega erfitt undir lokin og þess vegna get ég ekki verið annað en sáttur við stigið. Þeir eru svo góðir í sókninni og því var þetta orðið erfitt. Ekki hjálpaði heldur að vallarklukkan virkaði ekki og ég vissi því aldrei hversu mikið var eftir af leiknum. Lokamínúturnar voru lengi að líða,“ sagði Marinó þegar mbl.is ræddi við hann. 

Grindavík er í 9. sæti með 14 stig. „Við erum bara með tvo sigra en erum með átta jafntefli. Við höfum því bara tapað þremur leikjum en þau telja nánast ekki neitt þessi jafntefli. Við verðum því að ná í sigra enda höfum við ekki unnið síðan við unnum Fylki í maí. Fram undan er sex stiga leikur gegn ÍBV á heimavelli og þann leik verðum við að vinna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert