Fylkir fór létt með vængbrotna Akureyringa

Fylkir vann sinn fyrsta sigur í Pepsi Max-deild kvenna í fótbolta síðan í 3. umferð og 13. maí er liðið vann afar verðskuldaðan sigur á Þór/KA á heimavelli 3:0. Með sigrinum fór Fylkir upp fyrir HK/Víking og upp úr fallsæti. 

Fylkiskonur voru mikið sterkari í fyrri hálfleik gegn vængbrotnu liði Þórs/KA. Það vantaði tvo bestu miðverði gestanna, sem og sóknarmanninn Stephany Mayor og markmanninn Bryndísi Láru Hrafnkelsdóttur. 

Þór/KA réði illa við þau skakkaföll og Fylkir gekk á lagið. Það var verðskuldað þegar Fylkir komst yfir á elleftu mínútu. Ída Marín Hermannsdóttir kláraði þá glæsilega framhjá Hörpu Jóhannsdóttur í marki Þórs/KA. 

Fylkiskonur héldu áfram að vera mikið sterkari og eftir þunga pressu kom annað markið loks á 44. mínútu. Hulda Hrun Arnarsdóttir skilaði þá boltanum upp í samskeytin með flottu skoti rétt utan teigs og var staðan í leikhléi 2:0. 

Fylkiskonur voru líklegri til að bæta við en Þór/KA að jafna framan af í seinni hálfleik. Marija Radojicic negldi boltanum t.a.m í slánna úr góðu færi á 50. mínútu. Þriðja markið kom loks á 72. mínútu. Þá skoraði varamaðurinn Margrét Björg Ástvaldsdóttir eftir flotta sókn og góða sendingu Thelmu Lóu Hermannsdóttur. 

Margrét skaut beint á Hörpu Jóhannsdóttur í markinu, en Harpa missti boltann afar klaufalega undir sig og hann lak í markið. Eftir þriðja markið gerðist fátt og Fylkiskonur fögnuðu langþráðum deildarsigri. 

Fylkir 3:0 Þór/KA opna loka
90. mín. Þór/KA fær hornspyrnu Hulda Ósk vinnur horn. Nær Þór/KA sárabótarmarki?
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert